Færeyingur og Finni afgreiddu FH

Frans Elvarsson og Davíð Snær Jóhannsson berjast um boltann í …
Frans Elvarsson og Davíð Snær Jóhannsson berjast um boltann í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Keflavík sigraði FH 2:1 í sjöundu umferð Bestu deildar Karla í knattspyrnu á HS Orkuvellinum í Keflavík í dag.

Fyrir leikinn sátu Keflvíkingar í tíunda sæti deildarinnar með fjögur stig en FH-ingar voru í sjöunda sæti með sjö stig.

Leikurinn byrjaði rólega og voru hvorug liðin að ná að skapa einhver færi fyrstu tíu mínúturnar. Það var færeyski framherji Keflvíkinga sem skoraði fyrsta mark leiksins á 12. mínútu leiksins, Kian Williams vann þá boltann og keyrði með hann í átt að marki FH-inga, Kian á góða sendingu á PatrikJohannnesen sem klárar vel og kemur Keflvíkingum í forustu, 1:0.

Það tók FH-inga rúmar fjórtán mínútur að jafna leikinn og var það Matthías Vilhjálmsson sem gerði mark FH-inga á 24. mínútu. Vuk Oskar Dimitrijevic á þá góða sendingu inn á markteig Keflvíkinga þar sem Matthías mætir og kemur boltanum yfir línuna, 1:1.

Það var síðan finnski miðvörðurinn Dani Hatakka sem kom Keflvíkingum aftur yfir á 28. mínútu. Ingimundur Aron Guðnason átti þá góða hornspyrnu beint á kollinn á Dani Hatakka sem á góðan skalla sem endar í netinu, 2:1.

Keflvíkingar fóru með verðskuldaða eins marks forustu inn í hálfleikshléið.

FH-ingar sóttu stíft í seinni hálfleik og reyndu allt til að finna jöfnunarmarkið. Þeir fengu tækifærin til þess og sluppa tvisvar sinnum í gegn, fyrst var Steven Lennon kominn einn á móti Sindra Kristni Ólafssyni en Sindri gerði frábærlega og varði vel, síðan var það Baldur Logi Guðlaugsson sem var kominn einn á móti Sindra en aftur á Sindri Kristinn glæsilega markvörslu og heldur Keflvíkingum í forustunni.

FH-ingar náðu ekki að nýta færin sem þeir fengu og lönduðu Keflvíkingar gríðarlega sterkum sigri. Lokatölur 2:1 fyrir Keflvíkingum.

Keflvíkingar fara þá í sjö stig og hoppa upp í áttunda sæti deildarinnar og jafna þar með FH-inga að stigum. FH situr áfram í sjöunda sæti.

Næsti leikur Keflvíkinga í deild er gegn ÍA á Akranesi sunnudaginn 29. maí næstkomandi, en fyrst taka þeir á móti grönnum sínum í Njarðvík í 32 liða úrslitum Mjólkurbikarsins á miðvikudaginn 25. maí.

FH-ingar mæta næst KR-ingum í Kaplakrika 29. maí næstkomandi.

Keflavík 2:1 FH opna loka
90. mín. Leik lokið Lokatölur í Keflavík 2:1 fyrir Keflvíkingum
mbl.is