Á ekki að sjást hjá meistaraflokki í efstu deild

Ívar Örn Árnason spyrnir boltanum frá marki KA í leiknum …
Ívar Örn Árnason spyrnir boltanum frá marki KA í leiknum í kvöld en Guðmundur Andri Tryggvason reynir að komast fyrir hann. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Ívar Örn Árnason hefur staðið vaktina vel í vörn KA í sumar í Bestu deildinni í fótbolta. Hann hefur verið viðloðandi liðið í mörg ár en er fyrst núna að stimpla sig inn af fullri alvöru.

Menn á Brekkunni á Akureyri eru almennt sammála um að Ívar Örn hafi verið jafnbesti maður liðsins í sumar. Þótti við hæfi að ræða málin við kappann eftir 1:1 jafnteflisleik KA og Vals í deildinni í kvöld. 

Sæll Ívar Örn. Þú hefur leikið alla leiki KA í sumar og verið með ýmsa félaga þér við hlið í vörninni. Menn eru almennt sammála um að þú hafir staðið þig virkilega vel. Hvað sýnist þér sjálfum? 

„Tímabilið byrjaði þannig að Dusan var í leikbanni þrjá fyrstu leikina og ég var staðráðinn í að nýta þá leik til að sanna mig og njóta hverrar mínútu. Svo þróuðust málin bara þannig að menn hafa verið í banni og meiddir. Ég leit þá á hvern leik sem ákveðna blessun og áskorun til að standa mig.

Hallgrímur þjálfari hefur tekið þessa vörn og þjálfað hana svakalega vel og mig alveg extra mikið. Það hefur hjálpað heilmikið með staðsetningar og svoleiðis. Það er líka gaman að vera kominn í miðvörðinn þar sem ég var alltaf bakvörður.“ 

Talandi um staðsetningar. Mark Vals var með þeim skrautlegustu sem sést hafa í efstu deild á Íslandi. Hvar var vörn KA í því marki? Tryggvi Hrafn fékk þá bolta fram völlinn með engan KA-mann nálægt sér og hann hafði greiðan aðgang að markinu. 

Nú hristir Ívar Örn bara hausinn en getur þó ekki varist brosi. „Þetta var helvíti klaufalegt. Við fengum horn og þá trítluðum við úr miðvarðastöðunum inn í teig hjá Val. Svo bara hélt sóknin áfram með fleiri fyrirgjöfum og áður en við vissum voru allir komnir í sóknina, við ætluðum bara að skora, vorum búnir að liggja á þeim heillengi.

Ég verð að taka þetta á mig. Ég átti að vera búinn að skila mér til baka en það voru allir steinsofandi, bæði í liðinu og á bekknum. Þetta er eitthvað sem maður getur séð á N1 mótinu í 5. flokki en á ekki að sjást hjá meistaraflokki í efstu deild.“ 

Það eru nú alltaf einn til þrír leikmenn skildir eftir til að verjast þegar liðin fá hornspyrnur. Þeir voru hvergi sjáanlegir. 

„Ég veit ekki hvað þetta var. Þeir voru bara komnir framar án þess að við værum búnir að skila okkur til baka. Þetta var bara algjört klúður.“ 

Þú minntist á varnarleikinn og hvernig Hallgrímur Jónasson er búinn að útfæra hann. Þið fáið ekki mörg mörk á ykkur en það vantar fleiri mörk frá sóknarmönnunum. Ertu ekki sammála því? 

„Við erum með frábæra sóknarmenn og þeir hljóta að fara að setja fleiri mörk. Elfar Árni er einn duglegasti leikmaður deildarinnar og á eftir að skora meira.“ 

Það var einmitt eitt sem einkenndi sóknir KA í dag en það voru óþarfa rangstöður þegar menn höfðu alla línuna til að horfa eftir. Þarf ekki að laga þetta? 

Nú tekur Ívar Örn stórt upp í sig. „Ég hef horft á ansi marga fótboltaleiki og sjaldan séð eins margar rangstöður dæmdar á eitt lið í sama hálfleiknum“ og á þá við seinni hálfleikinn. „Við þurfum að laga þetta og fá betri fókus í hlaup, sendingar og leikskilning. Það er ekki sniðugt að fá níu rangstöður í tíu atrennum. Mörkunum fækkar við það. Svo vantaði líka aðeins upp á fyrirgjafirnar þegar við komumst aftur fyrir þá en þetta hlýtur að smella þegar við mætum ÍBV á laugardaginn“ sagði Ívar Örn að lokum. 

mbl.is