Hvað gera Víkingar í Malmö?

Víkingar unnu forkeppnina á sínum heimavelli og nú mæta þeir …
Víkingar unnu forkeppnina á sínum heimavelli og nú mæta þeir sænsku meisturunum í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Íslands- og bikarmeistarar Víkings fá í dag það erfiða verkefni að mæta Svíþjóðarmeisturum Malmö á útivelli í fyrstu umferð Meistaradeildarinnar en þar glíma þeir við eitt allrabesta lið Norðurlanda um þessar mundir.

Malmö situr reyndar í fimmta sæti sænsku úrvalsdeildarinnar eftir óvænt tap gegn Sundsvall fyrir helgina en eru aðeins fjórum stigum á eftir toppliði Häcken. Malmö hefur unnið sænsku deildina tvö undanfarin ár og hefur gríðarlega reynslu af Evrópukeppni.

Í fyrra komst liðið í riðlakeppni Meistaradeildarinnar og mætti þar Juventus, Chelsea og Zenit Pétursborg. Þar fékk liðið reyndar aðeins eitt stig, gegn Zenit, og skoraði eitt mark, en tapaði m.a. 0:1 fyrir Chelsea á heimavelli og 0:1 gegn Juventus í Tórínó.

Góðkunningi Víkinga og þeirra liðsmaður og síðan þjálfari, Milos Milojevic, þjálfar lið Malmö en hann tók við því í vetur þegar hinn íslenskættaði Jon Dahl Tomasson hætti eftir tvo meistaratitla í röð og tók síðan við Blackburn á Englandi.

Malmö er eina félagið af Norðurlöndum sem hefur komist í úrslitaleik um Evrópumeistaratitilinn. Liðið beið lægri hlut fyrir Englandsmeisturum Nottingham Forest í úrslitaleik Evrópukeppni meistaraliða vorið 1979.

Keflavík og Fram unnu Svía

Víkingar hafa aldrei áður mætt sænsku liði í Evrópukeppni og Malmö hefur aldrei áður mætt íslensku liði. Af þeim ellefu skiptum sem íslensk og sænsk lið hafa mæst á Evrópumótum karla hafa þau íslensku tvisvar náð að slá þau sænsku úr keppni, í bæði skiptin á síðustu öld.

Greinin í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert