Hún er frábær, þetta gerist ekki betra

Úr leik liðanna í dag.
Úr leik liðanna í dag. mbl.is/Arnþór

„Sigrarnir verða ekki mun sætari en þetta,“ sagði Frans Elvarsson, leikmaður Keflavíkur, í samtali við mbl.is eftir að hafa skorað sigurmarkið í uppbótartíma í 2:1 sigri á Leikni úr Reykjavík í Bestu deild karla í fótbolta í Breiðholtinu í kvöld.

„Tilfinningin er frábær, hún gerist ekki betri. Mark á lokamínútunum, það gerist ekki betra en það. 

Mér fannst við eiga þetta skilið. Við erum búnir að fá svona mörk á okkur í undanförnum leikjum þannig það var kominn tími á að við fengum þessa tilfinningu. 

Heilt yfir var Frans nokkuð sáttur með frammistöðu síns liðs. „Við vorum meira með boltann en sköpuðum ekkert gríðarlega mikið af færum og þeir voru hættulegir í skyndisóknum. Þetta var bara bardagaleikur. Mér fannst við samt skapa fleiri hættuleg færi þannig heilt yfir áttum við sigurinn skilið í dag.“

Frans Elvarsson.
Frans Elvarsson. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Ætlum að pressa á liðin fyrir ofan okkur.

Með sigrinum kemur Keflavík sér aftur upp í sjöunda sætið, aðeins þremur stigum frá KR í því sjötta. 

„Við erum þokkalega sáttir með stöðuna í töflunni í dag. Við ætlum að ýta á liðin fyrir ofan okkur og reyna að pressa á þau. 

Við eigum nokkur af þessum liðum fyrir ofan okkur i næstu leikjum þannig við ætlum bara að keyra á efstu sex sætin í næstu leikjum og enda þar þegar deildinni er skipt upp. 

Næsti leikur leggst mjög vel í mig. KR er einmitt eitt af liðunum sem við erum að reyna að pressa á. Það er alltaf gaman að mæta KR þannig ég hlakka bara mjög til þess,“ sagði Frans að lokum.

mbl.is