Tóku upp gamla ávana

Björn Sigurbjörnsson
Björn Sigurbjörnsson Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Björn Sigurbjörnsson, þjálfari Selfoss, var þokkalega ánægður með sitt lið eftir 2:0 sigur á Þór/KA í Bestu deild kvenna á Selfossi í kvöld. Selfoss komst yfir strax á 6. mínútu eftir markaleysi í 489 mínútur í deildinni.

„Við vorum búin að tala um það að komast aftur fyrir þær og við spiluðum okkur rækilega í gegnum þær snemma leiks og sköpuðum frábært mark. Það mark var bara eftir þeim prinsippum sem höfum staðið fyrir, að halda boltanum og rúlla honum þangað til við finnum glufur. Eftir markið virtist mér eins og það kæmi smá hræðsla í liðið, panik yfir því að vera yfir og við hættum að spila boltanum eins og við viljum gera,“ sagði Björn í samtali við mbl.is eftir leik.

Hann hafði þó temmilegar áhyggjur því Þór/KA var ekki að skapa mikið gegn firnasterkri Selfossvörninni.

„Við verjumst alltaf vel. Það hefur verið einkenni hjá okkur allt tímabilið og við höfum fengið fá mörk á okkur þannig að við vorum ekkert að hleypa Þór/KA inn í þetta að ráði. Ég var samt aldrei í rónni fyrr en annað markið kom því þær voru farnar að pressa okkur. Vörnin stóð sína plikt og Tiffany átti síðan eina frábæra vörslu, þannig að þegar Sue var búin að smella boltanum í skeytin þá vorum við aðeins rólegri,“ sagði Björn en Susanna Friedrichs gerði út um leikinn með glæsimarki á 78. mínútu.

Eftir þennan sigur sigla Selfyssingar lygnan sjó um miðja deild en Björn segir að það sé nóg að gera hjá liðinu á næstunni.

„Nú höldum við bara áfram að þroska okkar leik. Við tókum smá hliðarskref í kvöld því við vorum að sparka langt og gera meira af því en við viljum gera. Það var kannski í einhverri örvæntingu að leikmenn fóru að taka upp gamla ávana. Allt í góðu, við viljum stundum sparka langt en þetta var óvanalegt fyrir okkur og við munum halda áfram að reyna að finna einhvern milliveg í þessu,“ sagði Björn að lokum.

mbl.is