Ein mistök dugðu til sigurs

Nik Chamberlain á hliðarlínunni í kvöld.
Nik Chamberlain á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Nik Chamberlain þjálfari Þróttar var svekktur eftir 1:0-tap gegn Þór/KA á SaltPay-vellinum á Akureyri í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í kvöld.

„Hrós á Þór/KA, þær mættu til leiks eins og þetta væri bikarúrslitaleikur og við náðum ekki að mæta þeim í baráttunni, svo einfalt var það. Við náðum engum takti í kvöld.

Það var ekkert eitt sérstakt sem klikkaði hjá okkur í kvöld heldur var þetta blanda af alls kyns hlutum sem voru ekki nægilega góðir. Völlurinn hjálpaði ekki, við urðum að breyta okkar leik og leita meira fram völlinn, frekar en að halda boltanum eins og við gerum vanalega.

Þetta var einn af þessum leikjum þar sem hvorugt liðið var frábært og ein mistök dugðu til sigurs. Það féll með þeim í kvöld, við gerum mistök þegar við gleymum okkur varnarlega og þær refsa okkur fyrir það.“

Katla Tryggvadóttir var ekki með Þrótti í leiknum en hún hefur verið einn besti leikmaður liðsins á tímablilinu.

„Að missa hana út degi fyrir leik hjálpaði auðvitað ekki. Það varð til þess að við urðum að breyta leikstílnum okkar og fyrirvarinn á því var stuttur.“

Þróttur er enn í baráttu í efri hluta deildarinnar en tapið í kvöld gerir liðinu erfiðara fyrir í eltingaleiknum við Breiðablik og Val.

„Við höfum enn fjóra leiki til að ná í fimm stig og komast þar með í 30 stigin. Það er markmiðið okkar og við höfum enn tíma til að ná því. Það eru samt sem áður mikil vonbrigði hvernig þessi leikur fór í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert