Síðasta EM aðeins minna í sniðum en maður bjóst við

Kolbeinn Þórðarson í leik með U21-árs landsliðinu í sumar.
Kolbeinn Þórðarson í leik með U21-árs landsliðinu í sumar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kolbeinn Þórðarson, einn reynslumesti leikmaður íslenska U21-árs landsliðsins í knattspyrnu, er spenntur fyrir fyrri leiknum gegn Tékklandi í umspili um laust sæti á EM 2023 í Georgíu og Rúmeníu.

„Við erum bara mjög vel stemmdir. Við erum búnir að vera með góðan undirbúning og þetta er náttúrlega rosalega spennandi leikur.

Við erum búnir að stefna að því að vera í möguleika á að komast á lokamót og ætlum okkur að komast þangað,“ sagði Kolbeinn í samtali við mbl.is fyrir æfingu liðsins á Víkingsvelli í morgun.

Um andstæðinga morgundagsins sagði hann:

„Við erum búnir að skoða þá. Þeir eru mjög góðir varnarlega, búnir að halda hreinu í sjö leikjum í undankeppninni, sem er mjög tilkomumikið.

Þeir eru sterkir og með góða leikmenn fram á við. Þetta er bara hörkulið og við vitum að við erum að fara í hörkuleik en við erum fullir sjálfstrausts.“

Vill fara aftur á EM

Kolbeinn, sem á 17 leiki fyrir U21-árs landsliðið, er einn af átta leikmönnum í núverandi leikmannahópi sem tóku þátt á síðasta Evrópumóti, EM 2021. Hann sagði reynsluna af því munu koma til með að hjálpa leikmönnum í viðureigninni gegn Tékkum.

„Alveg klárlega, það hjálpar alveg helling. Það ýtir undir þá tilfinningu að maður vill fara þarna aftur. Á seinasta móti voru takmarkanir vegna Covid þannig að það voru engir áhorfendur.

Því var það kannski svona aðeins minna í sniðum en maður bjóst við. Þetta virkar bara sem bensín til þess að fara þarna aftur og þá með áhorfendur, íslenska áhorfendur.“

Búinn að jafna sig á meiðslum

Kolbeinn hefur ekkert leikið með félagsliði sínu Lommel í belgísku B-deildinni á tímabilinu en hann sagði það eiga sér eðlilega skýringar.

„Ég meiddist á undirbúningstímabilinu og var frá í einhverjar sex vikur. Ég er búinn að vera að æfa í tæpan mánuð núna en þeir eru búnir að vera tregir til þess að gefa mér alveg grænt ljós á að vera í hóp.

En ég var í hópnum í síðasta leik og ég er alveg í toppstandi, bara 100 prósent,“ sagði Kolbeinn að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert