Ótrúlega mörg færi og við grátlega nærri

Steinar Þorsteinsson, leikmaður ÍA.
Steinar Þorsteinsson, leikmaður ÍA. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Við vorum ekkert langt frá því að taka þó ekki hafi verið nema eitt stig hérna,“ sagði Jón Þór Hauksson þjálfari Skagamanna eftir 3:2 tap fyrir Keflvíkingum þegar liðin mættust í fyrstu umferð neðri hluta efstu deildar karla í fótbolta, Bestu deildinni, í Keflavík I dag.

Skagamönnum hefur gengið vel gegn Keflavíkingum og hafa unnið síðustu leiki liðanna þjálfarinn sagði að á öllu von í þessum leik.   „Við vissum að Keflvíkingar kæmu dýrvitlausir og ætluðu að kvitta fyrir úrslitin úr síðustu leikjum okkar svo það kom okkur ekkert á óvart, ekki frekar en þegar maður kemur til Keflavíkur að spila og þá eru ákveðin gildi sem þú verður að hafa í lagi og mér fannst við svo sem gera það ágætlega.   Keflvíkingar byrjuðu leikinn vissulega betur en síðan náum við aðeins tökum á því og yfirhöndinni, áttum margar frábærar sóknir og gátum sannarlega skorað fleiri mörk í þessum leik.  Þetta var í raun ótrúlegur leikur, ótrúlega mörg marktækifæri á báða bóga og bæði lið hefðu getað skorað meira og við vorum grátlega nærri því.  Mér fannst enn og aftur, eins í sumar, að við hefðum ekki átt að tapa þessum leik,“  sagði Jón Þór.

Skagamenn þurfa bæði að bíta í skjaldarrendur og hífa upp sokkana til að hrista af sér falldrauginn. „Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að menn mæti tilbúnir í næsta leik, ég vona svo sannarlega ekki,“  bætti Jón Þór við.

Muna að hafa gaman af að spila fótbolta

Steinar Þorsteinsson fyrirliði Skagamanna var svekktur yfir að fá ekki neitt úr þessum leik en leggur þó ekki árar í bát.  „Ég veit ekki hvað ég sagt um þennan leik, þetta var bara svekkjandi. Við vorum inni í leiknum og fengum færi í lokin, sem hefði þó getað gefið okkur stig og það er mjög svekkjandi að hafa ekki náð stigi út úr þessu.  Við verðum bara að einbeita okkur að því að þetta er bara einn leikur í einu og muna að þó þetta sé erfitt verðum við að muna að hafa gaman af því að spila fótbolta.  Það er því bara næsti leikur,“ sagði fyrirliðinn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert