Eiður Smári grunaður um ölvunarakstur

Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Eiður Smári Guðjohnsen, annar þjálfara karlaliðs FH í knattspyrnu, er grunaður um ölvunarakstur. Af þeim sökum er starf hans talið í hættu.

Þetta kemur fram á vefnum Mannlífi í dag, sem kveðst hafa heimildir fyrir því að Eiður Smári muni sitja fund með stjórn knattspyrnudeildar FH í dag, sem metur málið sem grafalvarlegt.

Samkvæmt þeim heimildum er nær útilokað að hann haldi starfi sínu eftir þessa uppákomu.

Samkvæmt Fótbolta.net var Eiður Smári gripinn af lögreglunni, ölvaður við akstur eftir æfingu hjá FH fyrr í þessari viku.

Áður ratað í fjölmiðla

Eiður Smári tók við starfi þjálfara FH ásamt Sigurvin Ólafssyni um mitt tímabil og er Hafnarfjarðarliðið í miklu erfiðleikum í Bestu deild karla þegar fjórir leikir eru eftir af tímabilinu, í næstneðsta sæti, fallsæti, en þó einu stigi frá öruggu sæti.

Áfengisvandi Eiðs Smára hefur áður ratað í fjölmiðla þar sem myndband birtist af í honum annarlegu ástandi sumarið 2021.

Þá mætti hann ölvaður í beina útsendingu í Vellinum hjá Símanum Sport haustið 2021 og er þetta tvennt talið hafa átt stóran þátt í því að KSÍ hafi ákveðið að semja ekki við hann að nýju sem aðstoðarþjálfara íslenska karlalandsliðsins undir lok síðasta árs.

Samkvæmt heimildum mbl.is var Eiður Smári að skemmta sér síðastliðið fimmtudagskvöld og hafði þar áfengi um hönd en FH lék svo úrslitaleik Mjólkurbikarsins á laugardag og tapaði þar naumlega, 2:3, fyrir Víkingi úr Reykjavík eftir framlengdan leik.

Hvorki náðist í Eið Smára né Valdimar Svavarsson, formann stjórnar knattspyrnudeildar FH, við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is