Leggur skóna á hilluna 23 ára

Ingimundur Aron Guðnason hefur lagt skóna á hilluna.
Ingimundur Aron Guðnason hefur lagt skóna á hilluna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Knattspyrnumaðurinn Ingimundur Aron Guðnason hefur lagt skóna á hilluna, en miðjumaðurinn er aðeins 23 ára.

Leikmaðurinn, sem kom ungur til Keflavíkur frá Víði úr Garði, hefur leikið 71 deildarleik fyrir Keflavík og skorað í þeim tvö mörk.

Hefur leikmaðurinn leikið 34 leiki í efstu deild og skorað eitt mark. Hann hefur verið að glíma við meiðsli að undanförnu, sem höfðu áhrif á ákvörðunina um að hætta.

„Ingimundur er sannur Keflvíkingur og erum við honum afar þakklát fyrir hans framlag innan vallar sem utan til Keflavíkur að sinni og við vitum að hann styður okkur áfram utan vallar,” segir í yfirlýsingu Keflavíkur.

mbl.is