Heldur kyrru fyrir á Akureyri

Steinþór Freyr Þorsteinsson í leik með KA gegn Stjörnunni sumarið …
Steinþór Freyr Þorsteinsson í leik með KA gegn Stjörnunni sumarið 2021. mbl.is/Kristinn Magnússon

Steinþór Freyr Þorsteinsson hefur skrifað undir nýjan samning við knattspyrnudeild KA og leikur því áfram með liðinu á komandi tímabili.

Steinþór Freyr, sem er 37 ára gamall, hefur leikið með KA frá 2017 þegar hann kom frá norska félaginu Viking frá Stafangri og verður því um sjöunda tímabil hans fyrir norðan að ræða á komandi tímabili.

„Þetta eru miklar gleðifregnir enda er Steinþór öflugur leikmaður og flottur karakter sem hefur komið sterkur inn í félagið.

Það er afar jákvætt skref að halda Steinþóri áfram innan okkar raða en auk þess að vera öflugur leikmaður er hann frábær liðsmaður og flott fyrirmynd fyrir hina fjölmörgu ungu leikmenn okkar og mun halda áfram að miðla sinni miklu reynslu til þeirra,“ sagði meðal annars á heimasíðu KA.

Steinþór Freyr er uppalinn hjá Breiðabliki þar sem hann hóf meistaraflokksferilinn árið 2002, þá aðeins 17 ára gamall. Steinþór Freyr skipti svo yfir til Stjörnunnar árið 2009, þar sem hann sló í gegn og lék sinn fyrsta A-landsleik undir lok ársins.

Um mitt sumar árið 2010 skipti Steinþór Freyr til Örgryte í sænsku B-deildinni og hélt svo til Sandnes Ulf um hálfu ári síðar, þar sem hann lék frábærlega, fyrst í norsku B-deildinni og svo í úrvalsdeildinni, sem varð þess valdandi að Viking festi kaup á honum fyrir tímabilið 2014.

Alls á Steinþór Freyr 153 leiki að baki í efstu deild, þar sem hann hefur skorað 11 mörk. Á hann átta A-landsleiki að baki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert