Hvað gerir Arnar Þór í Zenica?

Guðlaugur Victor Pálsson getur spilað sem bæði miðjumaður, bakvörður og …
Guðlaugur Victor Pálsson getur spilað sem bæði miðjumaður, bakvörður og miðvörður. Ljósmynd/Andreas Karner

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu mætir Bosníu í fyrsta leik sínum í J-riðli undankeppni EM 2024 í Zenica í Bosníu í kvöld.

Íslenska liðið verður án fyrirliðans Arons Einars Gunnarssonar sem tekur út leikbann og þá þurfti miðvörðurinn Sverrir Ingi Ingason að draga sig úr hópnum vegna meiðsla.

Hörður Björgvin Magnússon og Daníel Leó Grétarsson eru því einu hreinræktuðu miðverðirnir í hópnum en þeir eru báðir örfættir.

Guðlaugur Victor getur hins vegar leikið sem miðvörður, þrátt fyrir að vera miðjumaður að upplagi, og það verður að teljast líklegt að hann leiki sem miðvörður gegn Bosníu.

Þá gæti Jóhann Berg Guðmundsson, sem verður fyrirliði á morgun, leyst stöðu miðjumanns þrátt fyrir að hafa leikið sem kantmaður nánast allan sinn landsliðsferil.

Það verður svo að teljast næsta víst að Alfreð Finnbogason byrji í fremstu víglínu enda langmarkahæsti leikmaðurinn í hópnum.

Líklegt byrjunarlið Íslands:

Mark: Rúnar Alex Rúnarsson.

Varnarmenn: Alfons Sampsted, Guðlaugur Victor Pálsson, Hörður Björgvin Magnússon, Davíð Kristján Ólafsson.

Miðjumenn: Arnór Sigurðsson, Jóhann Berg Guðmundsson, Þórir Jóhann Helgason.

Sóknarmenn: Hákon Arnar Haraldsson, Alfreð Finnbogason, Jón Dagur Þorsteinsson.

Alfreð Finnbogason er markahæstur í íslenska hópnum.
Alfreð Finnbogason er markahæstur í íslenska hópnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is