Hissa að sjá Birki Heimis vera mættan

Aron í baráttunni í kvöld.
Aron í baráttunni í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

„Það var geðveikt að sjá hann inni í lokin,“ sagði Aron Jóhannsson, leikmaður Vals, í samtali við mbl.is eftir 3:2-sigur liðsins á Stjörnunni í Bestu deildinni í fótbolta í kvöld. Birkir Heimsson skoraði sigurmark Vals á fimmtu mínútu uppbótartímans.

Andri Rúnar Bjarnason og Adam Ægir Pálsson komu Val í 2:0 í fyrri hálfleik, en tvö mörk undir lokin frá Ísaki Andra Sigurgeirssyni jöfnuðu leikinn í 2:2, en það seinna kom á 88. mínútu. Valur átti hins vegar lokaorðið.

„Þetta var frábær sigur en við þurfum að gera betur en þetta. Við þurfum að setjast aðeins niður og fara yfir hvað fór úrskeiðis í seinni hálfleik. Við eigum að sigla svona leikjum betur heim, en það var drullusætt í lokin að fá þrjú stig.

Frá leiknum í kvöld.
Frá leiknum í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Við sýnum karakter með að koma með sigurmarkið eftir að jafna. Eina sem við erum sáttir með eru þessi þrjú stig. Við vorum fínir í fyrri hálfleik en það var leiðinlegt hvernig við komum út í seinni og hvernig við spilum þá,“ sagði Aron.

Uppskriftin í áratug 

Sigurmarkið kom úr frekar óvæntri átt, en Birkir skoraði sitt þriðja mark í efstu deild í 63. leiknum í kvöld.

„Við vorum búnir að drulla upp á bak og fá á okkur tvö mörk. Svo kom þetta mark og það var frábært. Þetta er búið að vera uppskriftin í áratug hjá Val; fá Sigga upp í hornið og gefa bolta fyrir. Ég var smá hissa að sjá Birki Heimis vera mættan þarna, en hann er með geðveika löpp og klárar þetta frábærlega,“ sagði Aron.

Hann er ágætlega sáttur við níu stig úr fyrstu þremur leikjunum, en vill á sama tíma fá meira frá Valsliðinu. „Auðvitað viljum við vinna alla leiki. Við erum í þessu til að keppa um fyrsta sæti, ekkert annað. Við vorum ekki sáttir við Blikaleikinn, en núna einbeitum við okkur að næstu leikjum og við ætlum að vinna þá,“ sagði Aron.

mbl.is