Ósáttir við að fá ekki meira úr leiknum

Úr leik Víkinga og KA-manna í kvöld.
Úr leik Víkinga og KA-manna í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

„Við erum gríðarlega ósáttir að fá ekki neitt út úr leiknum,“ segir Hólmar Örn Rúnarsson, aðstoðarþjálfari KA-manna um 1:0 ósigur liðs síns á útivelli gegn Víkingi í 4. umferð Bestu deildar karla í kvöld.

„Þetta var svolítið lokaður leikur, mikið tekist á og lítið um færi, en við fengum t.d. eitt mjög gott færi í seinni hálfleik og það hefði verið gaman að komast yfir,“ segir Hólmar Örn og bætir við að það hafi verið svekkjandi að eitt mark þurfti að skilja liðin að, en það datt Víkingsmegin á 87. mínútu.Hólmar Örn segir að eftir því sem leið á leikinn hafi menn talið að leikurinn stefndi í markalaust jafntefli, en að því miður hafi Víkingar náð að brjóta ísinn undir leikslok.

KA-menn stóðu sig vel í kvöld, og hafa átt góða leiki í upphafi móts, en þó er uppskeran bara fimm stig. Hólmar Örn segir að KA-menn hefðu að sjálfsögðu viljað vera með fleiri stig eftir fyrstu fjórar umferðirnar, en norðanmenn séu engu að síður brattir fyrir næstu leiki.

„Við hefðum viljað vinna Keflavík í síðustu umferð, og ná einhverju meira hér í kvöld, því þá værum við í mjög góðri stöðu, en það fór ekki þannig. Þá þurfum við bara að „díla“ við það, og byrja á að vinna FH á miðvikudaginn,“ segir Hólmar Örn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert