Stórkostlegt mark Gísla á Kópavogsvelli

Andri Rafn Yeoman og Hallgrímur Mar Steingrímsson eigast við í …
Andri Rafn Yeoman og Hallgrímur Mar Steingrímsson eigast við í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Breiðablik hafði betur gegn KA, 2:0, í Bestu deild karla í fótbolta í kvöld. Breiðablik hefur nú unnið sex leiki í röð í öllum keppnum. Með sigrinum fór Breiðablik upp að hlið Vals í öðru sæti með 18 stig. KA er í fimmta sæti með 11 stig.

Liðunum gekk illa að skapa sér góð færi í fyrri hálfleik, þrátt fyrir að ná fínu uppspili inn á milli. Í raun fengu liðin eitt gott færi hvort.

Ásgeir Sigurgeirsson slapp einn inn fyrir vörn Breiðabliks á 41. mínútu, en Anton Ari Einarsson í marki Breiðabliks varði vel frá honum. Í uppbótartíma fyrri hálfleiks átti Gísli Eyjólfsson svo skot rétt fram hjá marki KA. Reyndust það einu færi fyrri hálfleiks og var staðan því markalaus þegar Ívar Orri Kristjánsson flautaði til hálfleiks.

Seinni hálfleikurinn byrjaði með látum fyrir Breiðablik, því það var ekki liðin mínúta þegar Steinþór Már Auðunsson sendi beint á Gísla Eyjólfsson, felldi hann síðan innan teigs og víti dæmt.

Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, fór á vítapunktinn, skoraði af öryggi og kom Kópavogsliðinu yfir. Þorri Mar Þórisson var nálægt því að jafna fyrir KA á 54. mínútu en hann hitti boltann illa, einn gegn Antoni Ara sem varði.

Aðeins mínútu síðar skoraði Gísli Eyjólfsson eitt af mörkum tímabilsins. Gísli tók við boltanum á miðsvæðinu, klobbaði einn KA-mann og skilaði boltanum í slána og inn með stórglæsilegu skoti af 25 metra færi eða svo.  

Breiðablik komst nokkrum sinnum nálægt því að bæta við þriðja markinu og varði Steinþór nokkrum sinnum mjög vel. Besta markvarslan kom á 62. mínútu þegar Höskuldur átti fastan skalla af stuttu færi, en viðbrögð Steinþórs voru stórglæsileg. Hann varði svo frá Kristni Steindórssyni skömmu fyrir leikslok, þegar Kristinn slapp einn í gegn. 

KA-mönnum gekk illa að skapa sér færi í seinni hálfleik og tveggja marka sigur Breiðabliks varð raunin. 

Breiðablik 2:0 KA opna loka
90. mín. Það verða minnsta kosti fimm mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert