Öruggur sigur Blika á Selfossi

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir sækir að Selfyssingum í leik liðanna á …
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir sækir að Selfyssingum í leik liðanna á síðustu leiktíð. mbl.is/Hákon Pálsson

Breiðablik vann mjög öruggan sigur á Selfossi í Bestu deild kvenna í knattspyrnu á Selfossvelli í kvöld. Lokatölur á fallegasta grasvelli landsins urðu 0:3.

Vallargestir voru enn að sleikja sósuna úr hamborgarabréfunum í upphafi leiks þegar Hafrún Rakel Halldórsdóttir var búin að skora fyrir Breiðablik af stuttu færi úr teignum eftir sofandahátt í vörn Selfoss. Selfyssingar virtust mjög taugaóstyrkir í upphafi leiks og Breiðablik hafði algjöra yfirburði.

Annað markið kom strax á 11. mínútu eftir vel æfða hornspyrnu Blika. Agla María Albertsdóttir renndi boltanum út á Andreu Rut Bjarnadóttur sem smellti honum í gegnum pakkann í teignum og beint í netið.

Var með má segja að sigurinn hafi verið tryggður og Breiðablik svæfði leikinn. Selfyssingum gekk ekkert að bera boltann upp völlinn, þær voru ítrekað étnar á miðjunni af sterkum miðjumönnum Blika. Þriðja mark gestanna leit dagsins ljós á 35. mínútu. Föst hornspyrna Öglu Maríu straukst af kollinum á varnarmanni Selfoss í andlitið á Barbáru Sól Gísladóttur og þaðan fór hann í netið.

Staðan var 0:3 í hálfleik og úrslitin ráðin. Leikur Selfoss batnaði í seinni hálfleik og leikurinn opnaðist aðeins eftir að Karitas Tómasdóttir fór meidd af velli fyrir Blika en hún hafði haldið miðjunni í heljargreipum. Þrátt fyrir sláarskot og nokkrar fyrirgjafir undir lokin hlýtur það að vera hausverkur fyrir þjálfarateymi Selfoss að sóknarleikur liðsins sé ekki burðugri en þetta annan deildarleikinn í röð.

M-ein­kunna­gjöf­in og ein­kunn dóm­ara verða í Morg­un­blaðinu á föstu­dag.

Selfoss 0:3 Breiðablik opna loka
90. mín. Sigríður Th. Guðmundsdóttir (Selfoss) á skot sem er varið +4 - Engin hætta.
mbl.is