Mögnuð tilþrif Þórdísar skiluðu Valssigri

Agnes Birta Stefánsdóttir úr Þór/KA og Þórdís Elva Ágústsdóttir úr …
Agnes Birta Stefánsdóttir úr Þór/KA og Þórdís Elva Ágústsdóttir úr Val í baráttu á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Eggert

Topplið Vals vann í kvöld 1:0-heimasigur á Þór/KA í Bestu deild kvenna í fótbolta. Með sigrinum fóru meistararnir upp í 16 stig. Þór/KA er um miðja deild með níu stig.

Valskonur voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og fengu bestu færin. Bryndís Arna Níelsdóttir skallaði hárfínt framhjá marki gestanna eftir sendingu frá Elísu Viðarsdóttur á 27. mínútu og sex mínútum síðar skaut Arna Sif Ásgrímsdóttir yfir markið úr góðu færi í teignum.

Þór/KA fékk sín færi líka. Sandra María Jessen skaut rétt yfir markið þegar hún reyndi að vippa yfir Fanneyju Ingu Birkisdóttur í marki Vals um miðjan hálfleikinn. Skömmu síðar skaut Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir rétt framhjá af 20 metra færi.

Besta færi hálfleiksins fékk þó Valskonan Ásdís Karen Halldórsdóttir í blálok fyrri hálfleiks þegar hún náði í víti eftir baráttu við Huldu Björgu Hannesdóttur. Ásdís fór sjálf á punktinn, en Melissa Lowder í marki Þórs/KA sá við henni og sá til þess að staðan í hálfleik væri markalaus.

Valskonur héldu áfram að skapa sér færi í seinni hálfleik og Bryndís Arna skallaði rétt yfir í upphafi hálfleiksins og Ásdís Karen skaut beint á Lowder skömmu síðar.

Bandaríski markvörðurinn kom hins vegar engum vörnum við á 54. mínútu þegar Þórdís Elva Ágústsdóttir skoraði fyrsta mark leiksins með stórkostlegu skoti upp í samskeytin fjær við vítateigshornið hægra megin, eftir sendingu frá Ásdísi.

Þór/KA átti fínan kafla eftir markið, náði í nokkrar hornspyrnur og setti pressu á vörn Valsliðsins. Það vantaði hins vegar að reyna á Fanneyju Ingu Birkisdóttur í markinu og var staðan enn 1:0, þegar tíu mínútur lifðu leiks. 

Leikurinn spilaðist svipað á lokakaflanum og fóru meistararnir að lokum með verðskuldaðan eins marks sigur af hólmi. 

M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu í fyrramálið.

Valur 1:0 Þór/KA opna loka
90. mín. Karlotta Björk Andradóttir (Þór/KA) kemur inn á Miðvörður af velli og sóknarmaður inn á. Það er allt eða ekkert.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert