Ronaldo við íslenskan fjölmiðlamann: Þig!

Cristiano Ronaldo sat fyrir svörum í Laugardalnum í dag.
Cristiano Ronaldo sat fyrir svörum í Laugardalnum í dag. mbl.is/Eyþór Árnason

Portúgalski knattspyrnumaðurinn Cristiano Ronaldo var í miklu stuði á blaðamannafundi portúgalska landsliðsins í höfuðstöðvum KSÍ á Laugardalsvelli í dag en liðið mætir Íslandi í J-riðli undankeppni EM á Laugardalsvelli á morgun.

Ronaldo, sem er 38 ára gamall, er fyrirliði portúgalska liðsins en hann sat fyrir svörum á fundinum ásamt þjálfaranum Roberto Martínez.

Portúgalski sóknarmaðurinn er samningsbundinn Al-Nassr í Sádi-Arabíu en hann gekk til liðs við félagið frá Manchester United í janúar á þessu ári.

„Ef þú mættir fá einn leikmann í heiminum til Al-Nassr, hvaða leikmann myndir þú velja?“ spurði Sæbjörn Þór Þórbergsson, fréttaritari á vefmiðlinum Fótbolta.net, Ronaldo að en spurning Sæbjörns var lokaspurning fundarins.

„Þig!“ sagði Ronaldo og benti á Sæbjörn en portúgalska stórstjarnan uppskar mikil hlátrasköll á fundinum fyrir gjörninginn og brosti sínu breiðasta þegar hann gekk af fundinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert