Þægilegur sigur Þróttar fyrir norðan

Katherine Cousins og Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir í fyrri leik liðanna.
Katherine Cousins og Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir í fyrri leik liðanna. Kristinn Magnússon

Þrettánda umferðin í Bestu-deild kvenna var leikin í dag. Á VÍS-vellinum í Þorpinu á Akureyri mættust Þór/KA og Þróttur. Liðin voru í 3. og 5. sæti fyrir leik. Þróttur með 21 stig en Þór/KA með 19. Gestirnir í Þrótti unnu þægilegan 4:0-sigur. Liðin eru í sömu sætum og áður en Þróttur dró aðeins á Breiðablik, sem gerði jafntefli í dag.

Þróttar-konur voru greinilega ekki komnar í neina skemmtiferð til Akureyrar. Þær byrjuðu leikinn með miklum látum og voru með nokkra yfirburði fyrsta kortérið. Strax á 3. mínútu kom fyrsta markið en þá gat Þróttur leyft sér að misnota tvö dauðafæri áður en boltinn barst til Katherine Cousins, sem setti boltann í netið af yfirvegum. Næstu mínútur voru heimakonum erfiðar en smám saman fóru þær að bíta frá sér en herslumuninn vantaði í nokkrar góðar sóknir frá þeim. Á meðan voru Þróttarar alltaf líklegir til að skora annað mark. Sierra Marie Lelii var einkar dugleg að koma sér í færi og rétt fyrir hálfleiksflautið náði hún loks að skora. Var það skallamark eftir góða fyrirgjöf Sæunnar Björnsdóttur og misheppnað úthlaup Melissu Lowder i marki Þórs/KA. Var staðan 2:0 í hálfleik.

Þróttur gerði nánast út um leikinn í byrjun seinni hálfleiks með marki Maríu Evu Eyjólfsdóttur. Þá hafði boltinn borist inn í teig norðankvenna og flumbrugangur hjá markverði og varnarmönnum Þórs/KA opnaði tækifæri fyrir hægri bakvörð Þróttar. María Eva þurfti ekki annað en að ýta boltanum yfir línuna af stuttu færi. Í stöðunni 3:0 var leikurinn heldur rólegur en Þróttur náði inn einu marki í viðbót áður en yfir lauk. Það mark skoraði Freyja Karín og var markið á svipuðum nótum og næsta mark á undan. Lauk leiknum með 4:0-sigri Þróttar en heimakonur sýndu lítið fram á við allan seinni hálfleikinn.

Með sigri Þróttar styrkti liðið stöðu sína í þriðja sætinu. Þróttur er nú þremur stigum frá Blikum en enn fimm stigum frá toppliði Vals. Þór/KA hefur nú tapað tveimur heimaleikjum í röð og er að færast fjær toppliðunum og nær þeim liðum sem eru að berjast um að komast í eitt af sex efstu sætunum.

Þróttur lék þennan leik nokkuð vel og liðið byrjaði hvorn hálfleik með miklum látum. Aftasta línan var traust og lenti sjaldan í vandræðum. Báðir bakverðirnir voru mjög öflugir og sókndjarfir. Var Mikenna McManus sérlega góð í að koma upp vinstri kantinn til að koma boltum inn í teig Þórs/KA. Mörk Þróttar í leiknum voru öll fremur ódýr og hefði Þór/KA átt að gera betur til að koma í veg fyrir þau. Markvörðurinn Melissa Lowder átti hreinlega slæman dag en hún hefur hingað til verið mjög góð í marki norðankvenna.

Annan leikinn í röð lék Þór/KA án tveggja sterkra leikmanna. Tahnai Annis og Dominique Randle eru að spila með Filippseyjum á HM og gæti fjarvera þeirra lengst ef lið Filippseyja kemst í 16-liða úrslit keppninnar. Þrátt fyrir að maður komi í manns stað þá má Þór/KA varla við því að missa þær mikið lengur. Þjálfari Þórs/KA, Jóhann Kristinn Gunnarsson, er alls ekki sáttur með að leikjum liðsins hafi ekki verið frestað vegna þessa og má lesa um það í viðtali sem mbl.is tók við Jóhann eftir leik.

Þór/KA 0:4 Þróttur R. opna loka
90. mín. Hulda Ósk Jónsdóttir (Þór/KA) á skot sem er varið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka