20. umferð: Nálægt 63 ára meti, Damir annar

Emil Atlason fagnar einu markanna í gærkvöld.
Emil Atlason fagnar einu markanna í gærkvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Emil Atlason er orðinn markahæsti leikmaður Bestu deildar karla í fótbolta eftir að hafa skorað þrennu fyrir Stjörnuna í sigrinum á KR í lokaleik 20. umferðarinnar í gærkvöld, 3:1.

Emil hefur nú skorað 12 mörk fyrir Garðabæjarliðið, þar af  fimm í síðustu tveimur leikjum, einu meira en Tryggvi Hrafn Haraldsson hjá Val sem er með 11 mörk. Framganga Emils er mögnuð því hann missti af fyrstu sex leikjum Stjörnunnar í deildinni í vor vegna meiðsla.

Emil virtist hafa skorað þrennu gegn Fylki í 19. umferðinni, aðeins sjö dögum fyrir leikinn gegn KR, en þriðja markið sem hann kom að í sigri Stjörnunnar í þeim leik, 4:0, hefur nú verið skráð sjálfsmark markvarðar Árbæjarliðsins.

Hann missti því naumlega af því að jafna 63 ára gamalt met Ingvars Elíssonar sem skoraði tvær þrennur fyrir ÍA með sjö daga millibili í deildinni árið 1960 en það er stysti tími á milli tveggja þrenna hjá leikmanni í deildinni.

Þetta er önnur þrenna Emils á ferlinum í efstu deild en hann skoraði sína fyrstu gegn Víkingi á síðasta tímabili. Hann þarf að ná einni í viðbót til að jafna við föður sinn, Atla Eðvaldsson, sem skoraði þrjár þrennur í deildinni, tvær fyrir Val árin 1977 og 1979 og eina fyrir KR árið 1991.

Damir Muminovic er annar leikjahæstur Blika í efstu deild karla …
Damir Muminovic er annar leikjahæstur Blika í efstu deild karla frá upphafi. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Damir Muminovic, miðvörður Breiðabliks, lék sinn 200. leik fyrir félagið í efstu deild karla í fótbolta þegar Blikar unnu Keflavík, 2:1, á sunnudaginn.

Hann er aðeins annar leikmaður félagsins sem nær þessum leikjafjölda, á eftir methafanum, Andra Rafni Yeoman, sem hefur leikið 271 leik fyrir Breiðablik í deildinni. Damir hefur alls spilað 238 leiki í efstu deild en hann lék áður með HK og Víkingi frá Ólafsvík í deildinni.

Heiðar Ægisson úr Stjörnunni spilaði sinn 150. leik í efstu deild gegn KR í gærkvöld. Af þeim eru 137 fyrir Stjörnuna og hann er fimmti leikjahæstur hjá félaginu í deildinni frá upphafi. Á undan honum eru Daníel Laxdal (288), Halldór Orri Björnsson (173), Jóhann Laxdal (171) og Hilmar Árni Halldórsson (144). Daníel var í gærkvöld heiðraður fyrir að leika samtals 500 leiki fyrir Stjörnuna í öllum mótum.

Kjartan Henry Finnbogason, framherjinn reyndi hjá FH, lék sinn 150. leik í efstu deild hér á landi þegar FH gerði jafntefli við HK, 2:2. Af þessum leikjum eru 133 fyrir KR og 17 fyrir FH. Kjartan hefur alls leikið 377 deildaleiki á ferlinum, heima og erlendis.

Birnir Snær Ingason er kominn með 40 mörk í efstu …
Birnir Snær Ingason er kominn með 40 mörk í efstu deild. mbl.is/Óttar Geirsson

Birnir Snær Ingason skoraði sitt 40. mark í efstu deild þegar hann kom Víkingi í 2:0 í toppslagnum gegn Val á Hlíðarenda, sem Víkingar unnu 4:0. Þar af eru 15 fyrir Víking, 12 fyrir HK, 12 fyrir Fjölni og eitt fyrir Val.

Anton Söjberg skoraði tvö fyrstu mörk sín í deildinni þegar hann gerði bæði mörk HK í jafnteflinu við FH, 2:2.

Gyrðir Hrafn Guðbrandsson skoraði fyrir FH gegn HK og hefur því gert þrjú af fjórum mörkum á tímabilinu gegn Kópavogsliðinu. Hann gerði tvö mörk í sigri á HK, 4:3, í Kaplakrika í vor.

Orri Sigurður Ómarsson lék sinn fyrsta deildaleik fyrir Val í 23 mánuði þegar hann kom inn á í tapleiknum gegn Víkingi.

Dagur Örn Fjeldsted lék sinn fyrsta leik í efstu deild þegar hann kom inn á hjá Breiðabliki í sigrinum á Keflavík, 2:1.

Muhamed Alghoul, landsliðsmaður Palestínu, lék sinn fyrsta leik með Keflavík þegar liðið mætti Breiðabliki. Hann varð jafnframt fyrsti leikmaðurinn frá Palestínu til að spila í deildinni.

Kevin Bru og Michael Jordan Nkololo léku sinn fyrsta leik með ÍBV í deildinni þegar liðið tapaði 0:1 fyrir Fylki á Hásteinsvelli. Bru er fyrsti leikmaður og landsliðsmaður Máritíus til að spila í deildinni og Nkololo er fyrsti landsliðsmaður Kongó til að spila í deildinni.

Úrslit­in í 19. um­ferð:
ÍBV - Fylk­ir 0:1
Fram - KA 2:1
Breiðablik - Kefla­vík 2:1
HK - FH 2:2

Val­ur - Vík­ing­ur R. 0:4
Stjarn­an - KR 3:1

Birnir Snær Ingason og Nikolaj Hansen skoruðu báðir sitt 10. mark á tímabilinu í deildinni í sigri Víkings á Val og eru komnir af fullum krafti í baráttuna um gullskóinn í deildinni.

Marka­hæst­ir í deild­inni:

12 Emil Atla­son, Stjörn­unni
11 Tryggvi Hrafn Har­alds­son, Val
10 Birn­ir Snær Inga­son, Vík­ingi
10 Ni­kolaj Han­sen, Vík­ingi
10 Stefán Ingi Sig­urðar­son, Breiðabliki

8 Adam Ægir Páls­son, Val
8 Fred Sarai­va, Fram
8 Kjart­an Henry Finn­boga­son, FH
7 Danij­el Dej­an Djuric, Vík­ingi
7 Gísli Eyj­ólfs­son, Breiðabliki
6 Aron Jó­hanns­son, Val
6 Bene­dikt Daríus Garðars­son, Fylki
6 Guðmund­ur Magnús­son, Fram
6 Ísak Andri Sig­ur­geirs­son, Stjörn­unni
6 Úlfur Ágúst Björns­son, FH
6 Örvar Eggerts­son, HK
5 Arnþór Ari Atla­son, HK
5 Aron Jóhannsson, Fram
5 Eggert Aron Guðmunds­son, Stjörn­unni
5 Klæm­int Ol­sen, Breiðabliki
5 Óskar Borgþórs­son, Fylki
5 Pat­rick Peder­sen, Val
5 Sami Kam­el, Kefla­vík

Næstu leik­ir:
26.8. KA - Stjarnan
26.8. FH - Valur
27.8. KR - Fylkir
27.8. Keflavík - Fram
27.8. HK - ÍBV
27.8. Víkingur R. - Breiðablik

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert