Bestu deildar liðin í fjórðungsúrslit – 15 ára með tvennu

Leikmenn Vals fagna fyrsta marki leiksins, sem Jónatan Ingi Jónsson …
Leikmenn Vals fagna fyrsta marki leiksins, sem Jónatan Ingi Jónsson skoraði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bestu deildar lið Vals og Fram tryggðu sér í kvöld sæti í átta liða úrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu með því að hafa betur gegn neðri deildar liðum í 16-liða úrslitum.

Bæði lið verða því í pottinum þegar dregið verður í átta liða úrslit næstkomandi þriðjudag.

Valur heimsótti 1. deildar lið Aftureldingar í Mosfellsbæinn og hafði betur, 3:1.

Jónatan Ingi Jónsson kom Valsmönnum yfir eftir aðeins átta mínútna leik en Andri Freyr Jónasson jafnaði svo metin fyrir Aftureldingu á 21. mínútu.

Aron Jóhannsson kom Val yfir að nýju eftir rúmlega hálftíma leik og staðan í hálfleik því 2:1.

Á 65. mínútu innsiglaði Adam Ægir Pálsson sigurinn með þriðja marki Vals og tveggja marka sigur gestanna niðurstaðan.

Framarar of sterkir fyrir 3. deildar liðið

Fram fékk 3. deildar lið ÍH í heimsókn í Úlfarsárdalinn og vann þægilegan sigur, 3:0.

Hinn 15 ára gamli Viktor Bjarki Daðason braut ísinn fyrir heimamenn um miðjan fyrri hálfleikinn og staðan 1:0 í leikhléi.

Í upphafi síðari hálfleiks bætti Már Ægisson við öðru markinu áður en Viktor Bjarki innsiglaði sigurinn með öðru marki sínu og þriðja marki Fram undir blálokin.

Viktor Bjarki Daðason fagnar fyrra marki sínu í kvöld.
Viktor Bjarki Daðason fagnar fyrra marki sínu í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka