Leikmaður Bayern í hópi Austurríkis

Glódís Perla Viggósdóttir og Sarah Zadrazil fyrir miðju
Glódís Perla Viggósdóttir og Sarah Zadrazil fyrir miðju AFP/Justin Tallis

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta mætir Austurríki í tveimur leikjum, fyrst ytra 31. maí og á síðan á Laugardalsvelli 4. júní. Sarah Zadrazil, liðsfélagi Glódísar Perlu Viggósdóttur, er í austurríska hópnum.

Zadrazil er reyndur miðjumaður en hún lék ekki með Austurríki gegn Pólverjum og Þjóðverjum í síðasta landsliðsglugga. Zadrazil skoraði fyrsta mark Austurríkis í 3:0 sigri á Íslandi á EM 2017 og er mikill liðstyrkur fyrir leikina sem framundan eru gegn Íslandi.

Nina Burger og Sarah Zadrazil
Nina Burger og Sarah Zadrazil AFP

Varnarmaðurinn Katharina Naschenweng, sem einnig leikur fyrir Bayern, er hinsvegar spurningamerki fyrir leikina mikilvægu en hún á við hnémeiðsli að stríða. Hægt verður þó að kalla hana inn í hópinn ef hún nær sér.

Mikil eftirvænting ríkir meðal stuðningsmanna Austurríska liðsins en þessir leikir gætu skorið úr um hvort liðið fylgi Þýskalandi beint á EM 2025 sem fram fer í Sviss. Þrjú þúsund miðar hafa þegar verið seldir en leikið verður á Innviertel vellinum í Ried, um 60 kílómetrum norðan við Salzburg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka