Makedónía vann í háspennuleik

Kiril Lazarov skoraði sjö mörk fyrir Makedóníu í sigri liðsins ...
Kiril Lazarov skoraði sjö mörk fyrir Makedóníu í sigri liðsins gegn Slóveníu í kvöld.

Makedónía hafði betur, 25:24, þegar liðið lék á móti Slóveníu í seinni leik dagsins í fyrstu umferð í C-riðli Evrópumótsins í handbolta karla sem fram fer þessa stundina í Króatíu.

Það voru bræðurnir Kiril og Filip Lazarov sem skoruðu tvö síðustu mörk leiksins fyrir Makedóníu og tryggðu liðinu sigur í leiknum. 

Dejan Manaskov var markahæstur hjá Makedóníu með átta mörk og áðurnefndur Kiril Lazarov var næstmarkahæstur með sjö mörk. 

Ziga Mlakar skoraði mest í jöfnu liði Slóvena eða fjögur mörk og Blaz Blagotinsek, Blaz Janc, Darko Zingesar og Miha Zarabec skoruðu þrjú mörk hver.

Þýskaland, sem fór með sigur af hólmi gegn Svartfjallalandi fyrr í dag, mætir Slóveníu í annarri umferð C-riðilsins á mánudaginn. Þá eigast Makedónía og Svartfjallaland við seinna sama dag.  

mbl.is