„Algjört fíaskó“

Nikolaj Jacobsen þjálfari Dana ræðir við leikmenn sína.
Nikolaj Jacobsen þjálfari Dana ræðir við leikmenn sína. AFP

Danska pressan fer ekki fögrum orðum um danska karlalandsliðiðið í handknattleik eftir tap gegn Tékkum á Evrópumótinu í Króatíu í gærkvöld.

Tékkar töpuðu fyrir Spánverjum með 17 marka mun í 1. umferð riðlakeppninnar og átti enginn von á öðru en öruggum sigri Dana sem margir spáðu fyrir mótið að yrðu í baráttunni um Evrópumeistaratitilinn.

Þrátt fyrir tapið eru Danir öruggir áfram í milliriðilinn vegna sjö marka sigursins á móti Ungverjum í 1. umferðinni en dönsku leikmennirnir fá harkalega gagnrýni frá dönskum fjölmiðlunum eftir frammistöðuna í gær.

„Leikur liðsins var algjört fíaskó,“ skrifar Bent Nyegaard, handboltasérfræðingur TV 2 í Danmörku, en þessi fyrrverandi þjálfari Fram hefur fylgt danska landsliðinu á stórmótum mörg undanfarin ár.

„Það er erfitt að sætta sig við að tapa á móti liði sem tapaði með 17 marka mun fyrir Spánverjum,“ skrifar Nyegaard en Danir mæta Spánverjum í lokaumferð riðlakeppninnar.

Nyeagaard gefur þjálfaranum Nicolaj Jacobsen 2 í einkunn fyrir hans vinnu í leiknum en Jacobsen tók við þjálfun landsliðsins í fyrra af Guðmundi Þórði Guðmundssyni.

„Danska liðið var ekki tilbúið í verkefnið,“ segir Nyegaard.

mbl.is