Svíar sendu Ísland heim af EM

Albin Lagergren skorar fyrir Svía gegn Króötum í leiknum í ...
Albin Lagergren skorar fyrir Svía gegn Króötum í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Uros Hocevar

Ísland er úr leik á Evrópumóti karla í handknattleik og hafnar í neðsta sæti A-riðils. Þetta var ljóst eftir að Svíþjóð vann gestgjafana frá Króatíu, 35:31, í lokaleik riðilsins. Króatískur sigur hefði tryggt Íslandi sæti í milliriðlum en þess í stað er íslenska liðið á heimleið.

Eftir tap Íslands fyrir Serbíu fyrr í kvöld, 29:26, þurfti Ísland að treysta á að Svíþjóð myndi ekki vinna Króatíu. Bæði lið voru komin áfram en vonin um að gestgjafarnir, studdir áfram af fjölmörgum áhorfendum, myndu skila sínu var hins vegar fljót að dofna.

Það var ljóst frá fyrstu mínútu gegn Króatíu að Svíar, undir stjórn Kristjáns Andréssonar, höfðu kortlagt Króata og hreinlega völtuðu yfir þá. Í stöðunni 4:3 fyrir Króatíu skoraði Svíþjóð sex mörk í röð. Króatar náðu að minnka muninn niður í tvö mörk áður en Svíar sögðu einfaldlega bless og stungu af en staðan í hálfleik var 17:12 fyrir Svía.

Í síðari hálfleik héldu Svíar áfram að taka Króata í kennslustund á meðan brúnin þyngdist á Íslendingunum sem fylgdust með leiknum. Eftir tíu mínútna leik eftir hlé var Svíþjóð með níu marka forskot, 25:16.

Króatar komu einfaldlega aldrei til baka til að ógna forskotinu og Svíar fögnuðu að lokum öruggum sigri, 35:31. Svíþjóð fer með fjögur stig áfram í milliriðil, Króatía með tvö stig eftir sigur á Serbum sem fara stigalausir áfram þar sem eini sigurinn kom gegn Íslandi.

Ísland er þar með úr leik eftir riðlakeppnina, annað Evrópumótið í röð.

Króatía 31:35 Svíþjóð opna loka
60. mín. Leik lokið Ísland er úr leik. Svíar sáu til þess.
mbl.is

Bloggað um fréttina