Danir fyrstir í undanúrslit á EM

Nikolaj Jacobsen og leikmenn danska landsliðsins eru öruggir um sæti …
Nikolaj Jacobsen og leikmenn danska landsliðsins eru öruggir um sæti í undanúrslitum á EM eftir leiki kvöldsins þrátt fyrir að hafa sjálfir ekkert leikið í kvöld. AFP

Eftir sigur Tékka á Makedóníumönnum í kvöld er ljóst að Danir eiga víst sæti í undanúrslitum Evrópumótsins í handknattleik karla. Danska liðið er nú öruggt um að hreppa annaðhvort fyrsta eða annað sæti í milliriðli tvö og eru fyrsta liðið til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum á þessu móti.

Danir eru með sex stig í riðlinum fyrir lokaleikina á morgun. Þjóðverjar, Spánverjar og Tékkar fjögur stig hver þjóð. Þjóðverjar og Spánverjar mætast á morgun og geta jafnað að stigum við Dani tapi þeir fyrir Makedóníu í lokaumferðinni. Eins geta Tékkar náð sex stigum leggi þeir Slóvena.

Danir geta hins vegar aldrei lent neðar en í öðru sæti í milliriðli tvö hvernig sem úrslit leikjanna þriggja í riðlinum fara í lokaumferðinni á morgun.  

Komist Frakkar og Þjóðverjar til viðbótar í undanúrslit á morgun mun fjórða þjóðin vera örugg um farseðil á HM á næsta ári. Danir og Þjóðverjar verða gestgjafar mótsins og eru þar af leiðandi öruggir um keppnisrétt, Frakkar eru ríkjandi heimsmeistarar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert