Frakkar tryggðu sér bronsið

Nikola Karabatic með boltann í leiknum í dag.
Nikola Karabatic með boltann í leiknum í dag. AFP

Frakkar tryggðu sér bronsverðlaun á Evrópumótinu í handknattleik karla en þeir sigruðu Dani í leiknum um 3. sætið, 32:29. Frakkar höfðu einnig þriggja marka forystu að loknum fyrri hálfleik, 17:14.

Danir voru skrefi á undan framan af fyrri hálfleik en um miðjan hálfleikinn náðu Frakkar forskoti og héldu því það sem eftir lifði af fyrri hálfleik.

Frakkar héldu Dönum í hæfilegri fjarlægð í seinni hálfleik en mest náðu Danir að minnka muninn í tvö mörk. Umdeilt atvik varð þó þegar nokkrar mínútur voru eftir af leik. Rasmus Lauge, leikmaður Danmerkur, skoraði að því er virtist löglegt mark eftir hraðaupphlaup. 

Dómarar leiksins dæmdu skref á Lauge en í endursýningu sást að það var kolrangur dómur en hefði markið staðið hefðu Danir minnkað muninn í eitt mark. Þess í stað fóru Frakkar í sókn, skoruðu og við það virtist allur vindur úr Dönum.

Nikola Karabatic skoraði 9 mörk í liði Frakka en Hans Lindberg var markahæstur Dana með 12 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert