Aðstoðarlandsliðsþjálfarinn smitaðist

Gunnar blessar mannskapinn að því er virðist á landsliðsæfingu í …
Gunnar blessar mannskapinn að því er virðist á landsliðsæfingu í nóvember. Guðmundur er til vinstri og Hreiðar Levý Guðmundsson verðlaunahafi frá Ólympíuleikunum 2008 er til hægri. mbl.is/Unnur Karen

Gunnar Magnússon, aðstoðarlandsliðsþjálfari karla í handknattleik, smitaðist af kórónuveirunni áður en landsliðshópurinn kom saman í byrjun janúar. 

Þetta kom fram á blaðamannafundi hjá HSÍ í dag. Gunnar hefur því ekki verið með hópnum í undirbúningnum fyrir EM í Ungverjalandi og Slóvakíu en fyrsti leikur Íslands er á föstudaginn. 

Landsliðsþjálfarinn Guðmundur Þ. Guðmundsson útskýrði á fundinum að allar æfingar íslenska liðsins hefðu verið teknar upp á myndband. Þjálfararnir hefðu því getað farið yfir æfingarnar saman þótt Gunnar væri í einangrun en ekki með hópnum á hótelinu. 

Guðmundur nefndi að Ágúst Þór Jóhannsson hefði aðstoðað sig meira á æfingum en til stóð. Ágúst aðstoðar markverðina og stúderar með þeim hvernig andstæðingarnir vilja skjóta á markið.

Ágúst Þór Jóhannsson hefur verið Guðmundi til halds og trausts …
Ágúst Þór Jóhannsson hefur verið Guðmundi til halds og trausts undanfarið. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is