EM viðhorf: Hef ekki áhyggjur af sókninni

Gísli Þorgeir Kristjánsson og Aron Pálmarsson í leiknum gegn Portúgal.
Gísli Þorgeir Kristjánsson og Aron Pálmarsson í leiknum gegn Portúgal. Ljósmynd/Szilvia Micheller

 Átti bjartsýnin fyrir EM við rök að styðjast? Já líklega.

Við Íslendingar eigum góða handboltamenn og gott landslið. Það þýðir þó auðvitað ekki að sjálfsagt sé að við förum í undanúrslit og spilum um verðlaun eins og gerðist á EM 2002 og EM 2010.

Það leiðinlega er að þegar við Íslendingar eigum góða handboltamenn þá virðast aðrar þjóðir einnig eiga góða handboltamenn. Það er auðvitað leiðindamál og rímar illa við allar þær greinar sem skrifaðar hafa verið um að handknattleikur sé deyjandi íþrótt. Hún lifir alla vega nógu góðu lífi til þess að undirritaður var um daginn í glænýrri íþróttahöll í Búdapest þar sem voru rúmlega 20 þúsund manns að horfa á leik Ungverjalands og Hollands og komust færri að en vildu.

Þar af leiðandi er ekki sjálfgefið að Íslandi séu allir vegir færir í mótinu jafnvel þótt við eigum flotta leikmenn. Ég er alveg jafn mikill aðdáandi Arons Pálmarssonar, Ómars Inga Magnússonar og Gísla Kristjánssonar eins og hver annar. Líklega hefur það skinið í gegn í skrifum á undanförnum árum. En það er ekki endilega nóg að vera skemmtilegir leikmenn til að ná langt.

Ég vona að þeir geri það en framundan eru leikir gegn Hollandi og Ungverjalandi áður en úr því fæst skorið hvort Ísland komist í milliriðil á EM í Búdapest. Leikir á móti tveimur mjög ólíkum liðum. Hollendingar eru fremur lágvaxnir eins og Íslendingar og sá leikur verður hraður. Ungverjar eru stórir og þungir og munu reyna að nýta sér það.

Sóknin verður í lagi

Persónulega hef ég litlar áhyggjur af sókninni hjá Íslandi í þetta skiptið. Vinstra megin er Aron sem hefur verið í hópi bestu leikmanna í heimi í mörg ár. Hægra megin er Ómar, íþróttamaður ársins, og einn aðsópsmesti leikmaður í Þýskalandi samkvæmt tölum í sókn. Vilji andstæðingar Íslands eyða orku í þessa menn þá er Gísli skilinn eftir á miðjunni. Leikmaður sem er einn sá besti sem ég hef séð í stöðunni maður á móti manni. Og hef ég þó fylgst grannt með stórmótum frá því landsliðsþjálfarinn Guðmundur Þ. Guðmunsson þaut fram og til baka með hlífar á olnbogum og hnjám um miðjan níunda áratuginn. Gísli er með svarta beltið í gegnumbrotum og sýndi það strax með FH gegn Val í úrslitakeppni Íslandsmótsins þegar hann var nýbyrjaður í framhaldsskóla. 

Ekki er auðvelt að stöðva Ómar Inga Magnússon ef hann …
Ekki er auðvelt að stöðva Ómar Inga Magnússon ef hann fær pláss. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Það er ekki góð staða á handboltavelli að gefa Gísla eða Ómari pláss. Hvað þá Aroni. Ef andstæðingar Íslands ná að þétta vörnina fyrir utan þá eru hornamennirnir Bjarki Már Elísson og Sigvaldi Björn Guðjónsson miklir markaskorarar. Aron og Ómar hafa gott vald á þvi að koma tuðrunni niður í horn ef það er besti kosturinn.

Ég hef því ekki áhyggjur af sókninni. Vörnin og markvarslan er meira spurningamerki. Ég hef áður sagt í Morgunblaðinu að mér fannst vörnin betri á HM í fyrra en á EM 2020. Frammistaðan gegn Portúgal á föstudaginn renndi frekari stoðum undir það. Þrátt fyrir það hef ég áhyggjur af því hvernig íslensku vörninni mun takast upp gegn útilínunni hjá Hollandi.  Úr því fæst skorið í kvöld en vonandi verður sá leikur ekki eins og leikurinn gegn Slóveníu á EM 2020 þegar snöggir og snarpir útileikmenn renndu sér í gegnum vörn Íslands. Í leik Ungverjalands og Hollands horfði ég að leikstjórnanda og vinstri skyttu Hollands vaða í gegn hvað eftir annað. 

Björgvin Páll hefur enn mikilvægu hlutverki að gegna. Enginn annar …
Björgvin Páll hefur enn mikilvægu hlutverki að gegna. Enginn annar í leikmannahópnum veit hvernig það er að vinna til verðlauna á Ólympíuleikum. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Ég vona að markvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson muni springa út á mótinu. Hann hefur alla burði til þess ef maður skoðar ferilinn til þessa og líkamlega burði. Hann hefur svo Björgvin Pál Gústavsson með sér sem hefur lag á því að verja dauðafæri við og við svo ekki sé talað um vítaköst. Fyrir utan þá þekkingu sem Björgvin getur komið með að borðinu eftir að hafa unnið til verðlauna 2008 og 2010.  Einnig er Ágúst Elí Björgvinsson í startholunum þegar tækifæri gefst. 

Athyglisverðir punktar:

-Ísland fékk aðeins eitt vítakast í leik Íslands og Portúgals. Ómar Ingi skoraði úr því. Portúgal fékk aðeins eitt vítakast.

-Orri Freyr Þorkelsson var í fyrsta skipti á skýrslu á stórmóti. Hann kom ekki við sögu.

-Ágúst Þór Jóhannsson var í fyrsta skipti á skýrslu hjá karlalandsliðinu sem aðstoðarþjálfari en á fjölmarga leiki að baki hjá kvennalandsliðinu.

-Þýsku dómurum þótti Arnar Freyr Arnarsson full harðhentur gegn Portúgölum og ráku hann tvisvar af velli í tvær mínútur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert