„Ekkert leyndarmál að þetta var erfið staða“

Ómar hefur lag á því að láta boltann ganga þótt …
Ómar hefur lag á því að láta boltann ganga þótt andstæðingarnir brjóti á honum. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Ómar Ingi Magnússon sýndi á löngum köflum frábæra frammistöðu gegn heimsmeisturunum frá Danmörku á EM í handknattleik í Búdapest í kvöld.

Ómar var markahæstur með 8 mörk og lék samherja sína oft uppi eins og hans er háttur. Danmörk sigraði 28:24 en þrátt fyrir öll áföllin vegna kórónuveirunnar náðu Danirnir aldrei að stinga af. 

„Við fórum fullir sjálfstrausts inn í leikinn. Þótt okkur vantaði góða leikmenn þá ætluðum við að vinna. Við ætluðum að koma þeim á óvart og náðum að gera það að einhverju leyti. Við spiluðum fínan leik þótt aðeins hafi vantað upp á. Þetta var fínt,“ sagði Ómar í samtali við mbl.is en íslenski hópurinn hafði mjög lítinn tíma til að bregðast við öllum þessum breytingum en alls vantaði sex leikmenn eins og fram hefur komið. 

„Það er ekkert leyndarmál að þetta var erfið staða en við gíruðum okkur í leikinn þótt aðstæðurnar væru erfiðar. Við vorum ekki með neinar afsakanir og við reyndum virkilega að vinna.“

Ómar Ingi Magnússon skorar eitt átta marka sinna í kvöld.
Ómar Ingi Magnússon skorar eitt átta marka sinna í kvöld. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Nokkrir leikmenn léku sínar fyrstu mínútur á stórmóti og á þessu móti auk þess sem Elvar Ásgeirsson lék sinn fyrsta landsleik. Hvernig fannst Ómari þeir komast frá leiknum? 

„Þeir voru flottir. Ég á eftir að sjá leikinn betur en menn börðust og lögðu sig fram. Það var flott en við þurfum líka að læra af þessu því við gerðum ákveðin mistök. Við þurfum kannski að laga þau fyrir næsta leik og þá eigum við séns,“ sagði Ómar en spurður um eigin frammistöðu gerði hann ekki mikið úr henni þótt Danirnir hafi lítið ráðið við Ómar í leiknum. 

„Þetta var ágætt bara. Ég hefði getað gert í nokkrum atriðum en á heildina litið var þetta bara fínt,“ sagði Ómar Ingi við mbl.is að leiknum loknum. 

mbl.is