Gríðarlega svekkjandi

Bjarki Már Elísson greindist með kórónuveiruna í dag.
Bjarki Már Elísson greindist með kórónuveiruna í dag. Ljósmynd/Szilvia Micheller

„Ég er búinn að vera aðeins slappur, með smá kvefeinkenni, en ég myndi klárlega spila gegn Danmörku ef þetta væri ekki kórónuveiran,“ sagði Bjarki Már Elísson, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í samtali við mbl.is í dag.

Bjarki Már greindist með kórónuveiruna í dag og tekur því ekki þátt í leik Íslands og Danmerkur í milliriðli I í Búdapest í kvöld.

Alls hafa sex leikmenn íslenska liðsins greinst með veiruna á tæpum sólahring en ásamt Bjarka Má eru þeir Björgvin Páll Gústavsson, Elvar Örn Jónsson, Ólafur Andrés Guðmundsson, Aron Pálmarsson og Gísli Þorgeir Kristjánsson allir smitaðir.

„Þetta var ógeðslega pirrandi því okkur fannst við vera á góðri leið með að ná markmiðum okkar á mótinu. Svo koma þessi smit upp sem var sett best að segja mikið sjokk.

Ég og Aron vorum búnir að vera mikið með Óla og Bjögga og okkur grunaði strax að við værum í hættu því við vorum búnir að vera með smá óþægindi í hálsinum.

Það var fyrst og fremst ótrúlega svekkjandi að heyra það að strákarnir hefðu smitast í gær og ennþá meira svekkjandi að greinast sjálfur í dag,“ sagði Bjarki.

Bjarki Már, Gísli Þorgeir Kristjánsson og Aron Pálmarsson verða allir …
Bjarki Már, Gísli Þorgeir Kristjánsson og Aron Pálmarsson verða allir fjarverandi í kvöld. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Aldrei upplifað meiri trú í landsliðinu

Íslenska liðið hefur spilað frábærlega á mótinu til þessa og er ósigrað í fyrstu þremur leikjum sínum.

„Við fórum beint inn á herbergi eftir að við greindumst og í kjölfarið var ég sendur í annað herbergi. Okkur var öllum splittað upp og svo er maður bara búinn að vera hangsa, lesa fréttir og taka við skilaboðum að heiman.

Við vorum allir mjög spenntir fyrir framhaldinu á mótinu eftir frábæra byrjun og það gerir þetta ennþá meira svekkjandi. Ég hef ekki upplifað svona mikla trú og sjálfstraust í landsliðinu síðan ég kom inn í þetta og maður getur ekki sagt það nægilega oft hversu svekkjandi þetta er.“

Það mun mikið mæða á Ómari Inga Magnússyni í sóknarleiknum …
Það mun mikið mæða á Ómari Inga Magnússyni í sóknarleiknum gegn Dönum. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Hrikalega erfitt gegn Danmörku

Bjarki viðurkennir að það verði erfitt að horfa á liðsfélaga sína mæta Danmörku í kvöld.

„Það verður ekki gaman að horfa á leikinn þegar maður á að vera spila sjálfur. Sjálfum finnst mér það hálf óþægilegt oft á tíðum en maður reynir að styðja strákana og vonar auðvitað að þeir vinni leikinn þó það verði hrikalega erfitt.

Annars veit ekkert hvernig framhaldið verður. Maður fékk þessar fréttir í dag og tekur bara einn dag í einu. Mín tilfinning er sú að mótahaldarar séu aðeins að missa þetta úr böndunum og reglurnar breytast dag frá degi. Við sjáum hvað verður en ég er ekki að velta mér of mikið upp úr því,“ bætti Bjarki við í samtali við mbl.is.

mbl.is