„Smitaðist af ... leikgleðinni“

Vignir Stefánsson í MVM höllinni í Búdapest en þangað kom …
Vignir Stefánsson í MVM höllinni í Búdapest en þangað kom hann í fyrsta skipti í kvöld til að keppa gegn Frökkum. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Síðustu sólarhringar hafa verið furðulegir hjá Vigni Stefánssyni, leikmanni Vals í handknattleik. 

Hann var í rólegheitunum heima á Íslandi fyrir tveimur sólarhringum en þá kom kallið frá Búdapest. Vignir var valinn í 35 manna hópinn fyrir EM en ekki í 20 manna hópinn sem fór til Ungverjalands. Vignir hefur ekki farið á stórmót með landsliðinu fyrr en hafði leikið átta A-landsleiki. 

Seinni partinn í gær var hann kominn á liðshótelið eða um það bil þegar liðið var að æfa í keppnishöllinni fyrir leikinn gegn Frakklandi. 

Í kvöld var hann á leikskýrslu á stórmóti í fyrsta sinn og kom inn á gegn Frökkum í síðari hálfleik. 

„Þetta var sturlað. Ógeðslega gaman að koma hingað í fyrsta lagi og hvað þá að taka þátt í þessu. Ég smitaðist ... þ.e.a.s. af gleðinni í hópnum og trúnni sem er til staðar,“ sagði Vignir þegar mbl.is greip hann á leið til búningsherbergja eftir sigurinn sæta gegn Frökkum í Búdapest í kvöld. 

Vignir Stefánsson og Guðmundur Þ. Guðmundsson þakka fyrir stuðninginn.
Vignir Stefánsson og Guðmundur Þ. Guðmundsson þakka fyrir stuðninginn. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Merkilegt að fylgjast með þessum gaurum

Átti Vignir von á því að koma við sögu í leiknum? 

„Nei alls ekki. Ég var eiginlega ekki að pæla í því og var bara að jafna mig eftir flugið í gær. Í dag var ekki liðsæfing og við æfðum bara sjálfir. Svo þurfti maður bara að vera tilbúinn og passa sig að kólna ekki niður á bekknum ef eitthvað myndi gerast.“

Hvernig voru taugarnar þegar Vignir fór inn á? 

„Þær voru ekkert spes fyrstu mínúturnar. Ég viðurkenni það alveg. Ég fylgdist með af bekknum í fyrri hálfleik og leikurinn þróaðist fáránlega vel fyrir okkur. Það er merkilegt að fylgjast með þessum gaurum sem hafa lent í ýmsu og hversu mikla trú þeir hafa á verkefninu,“ sagði hornamaðurinn Vignir Stefánsson í samtali við mbl.is.

mbl.is