Þjálfari Dana: Ég skulda Íslandi ekkert

Nikolaj Jacobsen, þjálfari Dana.
Nikolaj Jacobsen, þjálfari Dana. AFP

„Ég skulda Íslandi ekkert,“ sagði Nikolaj Jacobsen, þjálfari danska karlalandsliðsins í handknattaleik, í samtali við Jyllands-Posten í gær.

Danmörk mætir Frakklandi í úrslitaleik um efsta sæti milliriðils II í Búdapest í kvöld á Evrópumótinu sem fram fer í Ungverjalandi og Slóvakíu.

Ísland þarf að treysta á að Danir vinni Frakka til þess að eiga möguleika á sæti í undanúrslitum keppninnar en Jacobsen hafði áður gefið það út að hann myndi hvíla lykilmenn gegn Frakklandi.

„Ísland skuldar mér heldur ekkert. Það voru heldur engin leiðindi á milli liðanna þegar við féllum úr keppni á EM 2020,“ sagði Jacobsen en Danir þurftu að treysta á íslenskan sigur gegn Ungverjalandi í lokaumferð riðlakeppninnar á EM í Austurríki, Noregi og Svíþjóð.

Ungverjar fögnuðu hins vegar sigri í leiknum 24:18 í Malmö og Danir komust þar af leiðandi ekki áfram í milliriðlakeppnina eftir að liðið hafði tapað óvænt fyrir Íslandi í fyrstu umferð riðlakeppninnar, 30:31 í Malmö.

„Svona er handboltinn bara. Ísland er í þeirri stöðu sem þeir eru í og það er ekki okkur að kenna. Á sama tíma er það svekkjandi fyrir þá að við erum farnir að horfa á undanúrslitin.

Ég get samt lofað Íslandi og stuðningsmönnum Danmerkur því að þeir sextán leikmenn sem spila gegn Frökkum fara inn á völlinn til þess að vinna leikinn,“ bætti Jacobsen við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert