Berbatov og Robinho dýrastir

Dimitar Berbatov á Old Trafford í fyrrakvöld.
Dimitar Berbatov á Old Trafford í fyrrakvöld. Reuters

Nýir eigendur enska úrvalsdeildarfélagsins Manchester City fóru mikinn í leit sinni að framherja í fyrradag en félagaskiptaglugganum var lokað þá á miðnætti.

City-menn virtust á tímabili ætla að vinna kapphlaupið við erkifjendur sína í Manchester United um búlgarska framherjann Dimitar Berbatov, sem áður lék með Tottenham, en United hafði að lokum betur og greiddi 30,75 milljónir punda, 4,6 milljarða íkr., fyrir kappann.

Berbatov hefur leikið frábærlega með Tottenham frá því hann kom frá Leverkusen fyrir tæplega 11 milljónir punda árið 2006, og sjálfsagt mikill sjónarsviptir að honum fyrir stuðningsmenn Lundúnaliðsins. Tottenham fékk hins vegar hinn unga Fraizer Campbell að láni frá United og gekk frá samningi við rússneska sóknarmanninn Roman Pavlyuchenko sem heillaði marga á EM í sumar.

Stuðningsmenn City þurfa ekki að örvænta þó Berbatov hafi farið annað því eftir að boðið hafði verið í a.m.k. þrjár aðrar stórstjörnur, þeirra á meðal David Villa hjá Valencia, samþykkti Real Madrid mettilboð í brasilíska leikmanninn Robinho.

City greiddi 32,5 milljónir punda, 4,9 milljarða króna, fyrir Robinho sem gerir hann að dýrasta leikmanni í sögu Bretlandseyja. Fyrra metið átti Andriy Shevchenko sem keyptur var til Chelsea fyrir 30 milljónir punda 2006, en hann er nú sá þriðji dýrasti á eftir Berbatov og Robinho.

Rafa Benítez, stjóra Liverpool, varð loks að ósk sinni þegar félagið festi kaup á spænska kantmanninum Albert Riera frá Espanyol. „Riera býr yfir þeim hæfileikum sem við vildum. Hann er örvfættur, sterkur skallamaður, kraftmikill og með góðar fyrirgjafir,“ sagði Benítez eftir að kaupin höfðu gengið í gegn. Félögin tvö héldu viðskiptum áfram því bakvörðurinn Steve Finnan fór til Espanyol og skrifaði undir tveggja ára samning. Þá var Andriy Voronin lánaður til Hertha Berlín.

Quaresma sá dýrasti á Ítalíu í sumar

José Mourinho, stjóri Inter Mílanó á Ítalíu, hefur fyllt þær stöður sem hann vildi fylla í liðinu sem hann tók við í sumar. Inter festi kaup á portúgalska kantmanninum Ricardo Quaresma fyrir 3 milljarða króna, upphæð sem þó getur hækkað, sem gerir hann að dýrasta leikmanni Ítalíu í sumar. Áður hafði Mourinho fengið Mancini frá Roma og Sulley Muntari frá Portsmouth.

Bloggað um fréttina