Guðlaugur fyrirliði þó Gerrard væri með

Guðlaugur Victor Pálsson.
Guðlaugur Victor Pálsson.

Guðlaugur Victor Pálsson var fyrirliði varaliðs Liverpool í kvöld þegar það gerði jafntefli, 2:2, við 2. deildarliðið Tranmere Rovers. Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool, spilaði óvænt með liðinu en Íslendingurinn ungi bar samt fyrirliðabandið.

Gerrard kom nánast beint úr réttarsalnum þar sem hann var sýknaður af ákæru um líkamsárás. Vegna réttarhaldanna fór hann ekki með aðalliði Liverpool í Asíuför þess og því var ákveðið að hann spilaði með varaliðinu.

Gerrard skoraði glæsimark í leiknum, með langskoti, og Adam Hammill tryggði Liverpool jafntefli með marki undir lokin.

Leikmenn aðalliðs Liverpool voru á æfingu í Singapúr þegar þeim bárust fréttirnar af sýknu Gerrards og þar brutust út mikil fagnaðarlæti. Áhorfendur á Prenton Park, velli Tranmere í Birkenhead, útborg Liverpool, púuðu hinsvegar á fyrirliða Liverpool.

mbl.is

Bloggað um fréttina