Pulis: Dómgæslan felldi okkur

Luis Suárez skorar sigurmark Liverpool í leiknum í kvöld.
Luis Suárez skorar sigurmark Liverpool í leiknum í kvöld. Reuters

Tony Pulis, knattspyrnustjóri Stoke City, sagði eftir ósigurinn gegn Liverpool, 1:2, í enska deildabikarnum að dómari leiksins, Lee Probert, hefði ráðið úrslitum.

Hann dæmdi mark af Jon Walthers hjá Stoke þegar staðan var 0:0, fyrir brot á Pepe Reina markverði, og Pulis taldi að sitt lið hefði átt að fá vítaspyrnu þegar Peter Crouch féll í vítateig Liverpool undir lokin.

„Lee hefur dæmt nokkrum sinnum hjá okkur og hann hefur dæmt af okkur þrjú mörk. Í kvöld var um fullkomlega löglegt mark að ræða og þið verðið að spyrja hann um ástæðurnar því við skiljum ekkert í því," sagði Pulis, og sagði jafnframt að Jamie Carragher hefði átt að fá rautt spjald í leiknum.

„Jimmy Carragher fer aldrei í boltann en ef einhverjir í okkar liði spiluðu eins og hann gerir alltaf, fengjum við örugglega brottvísanir. Dómarar eiga að vera sanngjarnir og dæma eins á bæði lið en svo var ekki. Það er ekki hægt að láta eina reglu gilda í öðrum vítateignum og aðra reglu í hinum," sagði Pulis.

mbl.is