Rodgers stýrir Liverpool ekki í dag

Brendan Rodgers knattspyrnustjóri Liverpool.
Brendan Rodgers knattspyrnustjóri Liverpool. AFP

Knattspyrnustjórinn Brendan Rodgers er farinn heim til Liverpool frá London, ásamt tveimur öðrum úr hópi félagsins, vegna veikinda og stýrir liðinu ekki þegar það mætir QPR á Loftus Road í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Á vef Liverpool er skýrt frá því að læknir félagsins hafi sent þremenningana heim til að þeir smituðu ekki leikmenn liðsins, en hinir tveir eru Brad Jones varamarkvörður og Glen Driscoll, einn af aðstoðarmönnum Rodgers. Þeir eru allir með einhvers konar vírus.

Þjálfararnir Colin Pascoe og Mike Marsh munu stýra liði Liverpool í leiknum sem hefst klukkan 16.00.

mbl.is