Manchester United enskur meistari

Manchester United varð í kvöld enskur meistari í knattspyrnu í 20. skipti með því að sigra Aston Villa örugglega, 3:0, á Old Trafford í Manchester. Robin van Persie skoraði öll þrjú mörkin.

Manchester United er með 84 stig og á fjóra leiki eftir, sextán stigum meira en Manchester City sem á fimm leikjum ólokið en getur nú mest náð 83 stigum.

Aston Villa er með 34 stig í 17. sæti, þremur meira en Wigan sem er í fallsæti með 31 stig.

Robin van Persie skoraði mörkin þrjú á fyrstu 33 mínútum leiksins, tvö eftir sendingar frá Ryan Giggs og eitt eftir sendingu frá Wayne Rooney. Sigur liðsins var ekki í minnstu hættu eftir það og stuðningsmenn United voru byrjaðir að fagna meistaratitlinum löngu fyrir leikslok.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is:

90. Leik lokið og Manchester United er enskur meistari.

72. Wayne Rooney er skipt af velli hjá United og í hans stað kemur Danny Welbeck.

50. Robin van Persie lætur til sín taka á báðum endum vallarins því nú bjargar hann með skalla á marklínu United eftir hornspyrnu og skalla frá Fabian Delph!

45. Hálfleikur og það er nánast ekkert sem getur komið í veg fyrir að Manchester United verði krýndur Englandsmeistari í leikslok.

33. MARK - 3:0. Og þá er þrennan fullkomnuð hjá Robin van Persie. Aftur er það Ryan Giggs sem gefur á hann frá vinstri og Hollendingurinn skorar af stuttu færi. Þetta er í fyrsta sinn sem leikmaður United skorar þrennu í fyrri hálfleik í úrvalsdeildinni. Van  Persie er kominn með 24 mörk í deildinni í vetur.

13. MARK - 2:0. Glæsilegt mark frá Robin van Persie. Hann fær langa sendingu inn fyrir vörnina frá Rooney, tekur boltann viðstöðulaust á lofti á vítateig og skorar með gullfallegu skoti.

2. MARK - 1:0. United er strax komið yfir. Góð sókn, löng sending frá Wayne Rooney, Antonio Valencia sendir fyrir markið frá hægri, Ryan Giggs fær boltann móts við stöngina fjær og leggur hann á Robin van Persie sem skorar örugglega.

1. Leikurinn er hafinn.

Man Utd: De Gea, Da Silva, Jones, Evans, Evra, Carrick, Giggs, Valencia, Rooney, Kagawa, van Persie.
Varamenn: Lindegaard, Ferdinand, Hernández, Nani, Welbeck, Cleverley, Buttner.

Aston Villa: Guzan, Lowton, Vlaar, Baker, Bennett, Westwood, Delph, Weimann, N'Zogbia, Agbonlahor, Benteke.
Varamenn: Given, Clark, El Ahmadi, Bent, Holman, Sylla, Bowery.

mbl.is

Bloggað um fréttina