Palace keypti einn dyggasta þjón West Ham

James Tomkins kominn með Crystal Palace-treyjuna.
James Tomkins kominn með Crystal Palace-treyjuna. Ljósmynd/cpfc.co.uk

Crystal Palace hefur gengið frá kaupum á varnarmanninum James Tomkins frá West Ham fyrir 10 milljónir punda, jafnvirði 1,6 milljarða króna.

Crystal Palace staðfesti kaupin í dag en þau hafa legið í loftinu. Tomkins, sem er 27 ára gamall, fór ekki með öðrum leikmönnum West Ham í æfingaferðalag liðsins til Ameríku og þar með þótti ljóst að hann væri á förum til annars félags.

Tomkins er þriðji leikmaðurinn sem Alan Pardew fær til West Ham í sumar en áður höfðu kantmaðurinn Andros Townsend, sem kom frá Newcastle, og markvörðurinn Steve Mandanda frá Marseille bæst í hópinn.

Tomkins hefur allan sinn feril í meistaraflokki leikið fyrir West Ham, alls 243 leiki. Hann lék 32 leiki fyrir liðið undir stjórn Slavens Bilic á síðustu leiktíð, oftast sem hægri bakvörður. Hann var sá leikmaður West Ham sem lengst hafði spilað fyrir félagið, á eftir Mark Noble fyrirliða.

mbl.is