Palace með enn hærra tilboð í Benteke

Christian Benteke var með belgíska landsliðinu á EM í Frakklandi …
Christian Benteke var með belgíska landsliðinu á EM í Frakklandi þar sem það féll úr leik gegn Wales í 8-liða úrslitum. AFP

Enska úrvalsdeildarfélagið Crystal Palace vonast til þess að með því að bjóða Liverpool 31,5 milljónir punda, sem yrði metupphæð í sögu Palace, takist félaginu að fá belgíska framherjann Christian Benteke.

Liverpool hafnaði í síðustu viku boði frá Palace upp á 25 milljónir punda, jafnvirði 4,1 milljarðs króna. Nýja tilboðið myndi skila Liverpool 27 milljónum punda, auk árangurstengdra greiðslna upp á 4,5 milljónir.

Liverpool keypti Benteke fyrir ári frá Aston Villa fyrir 32,5 milljónir punda. Hann skoraði 10 mörk í 42 leikjum fyrir Liverpool, fyrst undir stjórn Brendans Rodgers en svo hjá Jürgen Klopp. Klopp er sagður tilbúinn að láta kappann fara.

Palace hafði áður reynt að fá belgíska framherjann Michy Batshuayi en hann fór til Chelsea fyrir 33,2 milljónir punda.

Palace hefur í sumar fest kaup á Andros Townsend frá Newcastle fyrir 13 milljónir punda og markverðinum Steve Mandanda frá Marseille fyrir 1,4 milljónir punda. Þá er James Tomkins sagður á leiðinni frá West Ham fyrir 12 milljónir punda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert