Enginn hlaupið meira en Gylfi

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson er þekktur fyrir mikla vinnusemi inni á vellinum og nú þegar einni umferð er ólokið í ensku úrvalsdeildinni er hann sá leikmaður í deildinni sem hefur hlaupið mest allra.

Gylfi hefur lagt að baki rúma 422 kílómetra og til að setja það í samhengi er vegalengdin á milli Reykjavíkur og Ísafjarðar 450 km.

Annar á listanum er fyrrverandi samherji hans hjá Tottenham, Daninn Christian Eriksen, sem hefur hlaupið samtals 418 kílómetra og í þriðja sætinu með 406 kílómetra er Sam Clucas úr Hull City.

Þegar tekið er saman meðaltal er Christian Eriksen efstur á blaði en hefur hlaupið að jafnaði 11,97 kílómetra. Jordan Henderson úr Liverpool kemur næstur með 11,92 kílómetra og í þriðja sætinu er Marcos Alonso úr Chelsea með 11,64 km. Gylfi hefur hlaupið að jafnaði 11,42 kílómetra í hverjum leik.

mbl.is