Alves undir stjórn Guardiola á ný

Dani Alves í úrslitaleik Meistaradeildarinnar fyrir í þessum mánuði.
Dani Alves í úrslitaleik Meistaradeildarinnar fyrir í þessum mánuði. AFP

Allt bendir til þess að brasilíski bakvörðurinn Dani Alves muni leika undir stjórn knattspyrnustjórans Pep Guardiola á nýjan leik því hann er sagður hafa samþykkt tveggja ára samning við Manchester City.

Alves yfirgaf Barcelona eftir farsælan átta ára feril þar fyrir ári síðan og lék með Juventus í vetur þar sem hann varð ítalskur meistari og komst í úrslit Meistaradeildar Evrópu.

Spænskir fjölmiðlar segja að kaup City á Alves séu þegar frágengin en The Guardian segir í dag að samningaviðræður séu enn í gangi. Alves sé þó búinn að samþykkja tilboð City í meginatriðum og muni leika með félaginu næstu tvö árin.

Alves er 34 ára gamall og lék 247 deildaleiki fyrir Barcelona og þar á undan 175 fyrir Sevilla. Hann varð þrisvar Evrópumeistari og sex sinnum spænskur meistari með Barcelona. Þá hefur Alves spilað 100 landsleiki fyrir Brasilíu.

mbl.is