Costa neitar að snúa aftur til Chelsea

Framtíð Diego Costa er í óvissu.
Framtíð Diego Costa er í óvissu. AFP

Framherjinn Diego Costa hjá Englandsmeisturum Chelsea sendi í morgun frá sér yfirlýsingu þess efnis að hann neiti að snúa aftur til félagsins.

Costa er sem stendur staddur í Brasilíu og var á dögunum sektaður fyrir að hafa ekki mætt á réttum tíma til æfinga með Chelsea á undirbúningstímabilinu. Samband hans og stjórans Antonio Conte er afar slæmt og Costa hefur verið tjáð að krafta hans sé ekki óskað hjá Chelsea.

Costa vill ólmur snúa aftur til Atlético Madrid á Spáni, þaðan sem Chelsea keypti hann. Atlético er hins vegar í félagaskiptabanni þar til í janúar, sem setur málið í enn meiri pattstöðu. Enska félagið vill svo að hann standi við samninginn sinn en geti ekki reynt að þvinga fram sölu.

mbl.is