Nágrannar setja áætlanir Chelsea í uppnám

Roman Abramovich, eigandi Chelsea.
Roman Abramovich, eigandi Chelsea. AFP

Roman Abramovich, eigandi enska úrvalsdeildarfélagsins Chelsea í knattspyrnu, er kominn í hálfgert öngstræti með þær áætlanir sínar að byggja nýjan leikvang fyrir félagið sem átti að vera sá dýrasti í heimi.

Búið var að samþykkja áætlanir Chelsea um að byggja nýjan leikvang í stað Stamford Bridge og var kostnaðurinn talinn vera um 1 milljarður punda, sem nemur rúmlega 140 milljörðum króna. En næstu nágrannar leikvangsins hafa hins vegar stefnt þeirri fjárfestingu í hættu.

BBC greinir frá því að Crosthwaites-fjölskyldan hafi áætlanirnar í höndum sér, en fjölskyldan býr í næsta húsi við Stamford Bridge. Hún heldur því fram að nýr leikvangur muni skyggja varanlega á hús þeirra og hafa ekki tekið við skaðabótum sem Abramovich hefur boðið. Sólarljósið á hús þeirra sé einfaldlega ekki til sölu.

Óvíst er hver næstu skref verða í málinu, en leikvangurinn átti að taka 60 þúsund manns í sæti og vera einn sá glæsilegasti í heimi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert