Tjáði sig um Sánchez og Mkhitaryan

José Mourinho.
José Mourinho. AFP

José Mourinho knattspyrnustjóri Manchester United var spurður út í hugsanleg félagaskipti Alexis Sánchez og Henrikh Mkhitaryan eftir sigur sinna manna gegn Stoke í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gærkvöld.

„Sánchez er leikmaður Arsenal og það eru hugsanlega fleiri lið sem vilja fá hann. Mér finnst að ég ætti ekkert að vera tjá mig um leikmann Arsenal,“ sagði Mourinho en fréttir bárust af því í gær að United sé tilbúið að láta Armenann Henrikh Mkhitaryan fara til Arsenal fái það Sílemanninn til liðs við sig frá Lundúnaliðinu.

Þá spurðist það út í gærkvöld að Manchester City hefur hætt við að eltast við Sánchez en Englandsmeistarar Chelsea eru sagðir komnir í baráttuna um að fá Sánchez til liðs við sig.

„Mkhitaryan er leikmaður sem ég kann vel. Hann hefur mikil gæði. Það er möguleiki á að hann fari en það er líka möguleiki að hann haldi kyrru fyrir,“ sagði Mourinho.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka