Walcott orðinn liðsfélagi Gylfa

Theo Walcott hefur yfirgefið Arsenal.
Theo Walcott hefur yfirgefið Arsenal. AFP

Everton gekk í dag frá kaupum á enska knattspyrnumanninum Theo Walcott frá Arsenal og nemur kaupverðið yfir 20 milljónum punda. BBC greinir frá þessu.

Walcott, sem er 28 ára gamall, er annar leikmaðurinn sem Everton kaupir í janúar en áður hafði félagið pungað út 27 milljónum punda fyrir tyrkneska framherjann Cenk Tosun frá Besiktas. Gylfi Þór Sigurðsson er hins vegar dýrasti leikmaður félagsins frá upphafi en hann var keyptur á 45 milljónir punda frá Swansea síðasta sumar.

Walcott kemur til Everton eftir 12 ára dvöl hjá Arsenal en hann er uppalinn hjá Southampton. Þessi eldfljóti kantmaður hefur skorað 108 mörk í 397 leikjum fyrir Arsenal.

Walcott skrifaði undir samning við Everton sem gildir til ársins 2021.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert