Cardiff enn með í baráttunni

Aron Einar Gunnarsson hefur ekkert spilað með Cardiff síðustu vikurnar ...
Aron Einar Gunnarsson hefur ekkert spilað með Cardiff síðustu vikurnar vegna meiðsla. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Cardiff, án landsliðsfyrirliðans Arons Einars Gunnarssonar sem er meiddur, er svo sannarlega með í baráttunni um sæti í ensku úrvalsdeildinni í vor.

Cardiff hafði betur gegn Bolton, 2:0, í ensku B-deildinni í kvöld þar sem Armand Traore og Sean Morrison skoruðu fyrir velska liðið í fyrri hálfleik. Aron Einar er á sjúkralistanum hjá Cardiff en hann gekkst undir aðgerð á ökkla í lok desember. Möguleiki er að hann snúi til baka undir lok mánaðarins.

Derby mistókst að komast upp í annað sæti en liðið tapaði fyrir Sheffield Wednesday á útivelli, 2:0.

Wolves trónir á toppi deildarinnar með 71 stig og allt lítur út fyrir að Úlfarnir spili í deild þeirra bestu á næstu leiktíð.

Birkir Bjarnason og félagar hans í Aston Villa eru í öðru sæti með 59 stig og Derby og Cardiff fylgja fast á eftir með 58 stig. Tvö efstu liðin vinna sér sæti í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð en liðin í 3.-6. sæti fara í umspil um þriðja lausa sætið í deildinni.

mbl.is