Mourinho brást illur við

José Mourinho á hliðarlínunni í Sevilla í gærkvöld.
José Mourinho á hliðarlínunni í Sevilla í gærkvöld. AFP

Þeir eru margir sparkspekingarnir sem hafa gagnrýnt spilamennsku Manchester United undir stjórn José Mourinho.

Liðið hefur þótt spila leiðinlegan varnarfótbolta í mörgum leikjum á tímabilinu og einn slíkur var í boði í gær þegar Manchester-liðið gerði markalaust jafntefli á útivelli gegn Sevilla í Meistaradeildinni.

Mourinho brást illur við þegar hann var spurður af því hvort hann væri að svíkja ríka hefð með sóknarbolta hjá félaginu og ekki síst undir stjórn Sir Alex Ferguson sem var í 27 ár við stjórnvölinn hjá félaginu.

„Næst þegar ég hitti David Beckham þá ætla ég að spyrja hann; David þegar þú spilaðir á hægri kantinum og vinstri bakvörðurinn sótti á þig. Varst þú kyrr og horfðir upp í stúku eða fylgdir þú leikmanninum eftir. Núna lítur það þannig út að allir góðir leikmenn verði að spila frjálst sem ég held að það sé svo heimskt að segja.

Sigurlið, bestu lið heims í dag, ekki fyrir 10 árum 20 eða 30 heldur núna. Allir leikmenn skila mikilli vinnu og allir þurfa að sýna mikinn aga í leikskipulaginu.“

Í útileikjum á móti Chelsea, Liverpool, Tottenham og Sevilla á leiktíðinni hefur Manchester United ekki náð að skora og hefur átt samtals sjö skot á markið í leikjunum fjórum. Næsti leikur Manchester United verður gegn Chelsea á Old Trafford á sunnudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert