„Ég er ekki feitur“

Luke Shaw stefnir á að vera í formi lífs síns …
Luke Shaw stefnir á að vera í formi lífs síns þegar tímabilið á Englandi hefst í ágúst. AFP

Luke Shaw, bakvörður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, hefur verið orðaður við brottför frá félaginu undanfarna mánuði. Hann hefur ekki átt fast sæti í liði United síðan José Mourinho tók við á Old Trafford sumarið 2016 og þá hefur hann einnig verið gagnrýndur fyrir það að vera ekki í nægilega góðu líkamlegu standi. Shaw verður samningslaus næsta sumar en vonast til þess að standa sig vel á næstu leiktíð og fá þar af leiðandi áframhaldandi samning. 

„Fólk segir að ég sé feitur en ég þekki minn eigin líkama betur en aðrir. Ég lít út fyrir að vera stærri en ég er þar sem ég er stórgerður. Ég er ekki feitur, ég er með líkama eins og Wayne Rooney en ég legg hart að mér og er duglegur í ræktarsalnum. Markmiðið mitt fyrir næsta tímabil er að vera í formi lífs míns og ég er á réttri leið. Við sem knattspyrnumenn erum regulega gagnrýndir en það er undir sjálfum þér komið hvort þú reynir að nýta það sem jákvæða eða neikvæða orku,“ sagði Shaw í samtali við Sportsmail í vikunni.

Shaw kom til United frá Southampton árið 2014 en United borgaði 30 milljónir punda fyrir hann á sínum tíma. Hann var að finna sitt besta form þegar hann tvífótbrotnaði illa í leik með United gegn PSV í Meistaradeild Evrópu haustið 2015. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert