Fabinho að glíma við meiðsli

Fabinho er að glíma við vöðvameiðsli og gæti misst af ...
Fabinho er að glíma við vöðvameiðsli og gæti misst af leiknum um helgina gegn West Ham. AFP

Fabinho, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, er að glíma við smávægileg meiðsli og gæti því misst af fyrsta leik Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð en það er Liverpool Echo sem greinir frá þessu. Liverpool tekur á móti West Ham á Anfield á sunnudaginn en Fabinho fór meiddur af velli í vikunni í 3:1-sigri Liverpool á Torino í lokaleik liðsins á undirbúningstímabilinu. 

Fabinho kom til Liverpool í sumar frá Monaco en enska félagið borgaði 43 milljónir punda fyrir hann. Fari svo að Fabinho, sem er að glíma við vöðvameiðsli, verði ekki klár á sunnudaginn er búist við því að Georginio Wijnaldum taki sæti hans í byrjunarliðinu en Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool, sneri aftur til æfinga í vikunni eftir sumarfrí og er ekki kominn í leikform.

mbl.is